151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

bygging hátæknisorpbrennslustöðvar.

125. mál
[23:22]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Nú hefur mér oft fundist að sveitarfélögin séu töluvert þjökuð af minnimáttarkennd gagnvart verkefnum, bæði þeim sem þau hafa fengið og ekki fengið. Hugsanlega er ég ósanngjarn og hugsanlega er þetta vegna þess að ekki hefur nóg af fjármunum fylgt þeim verkefnum sem þau hafa fengið í gegnum tíðina. Í þessari tillögu sé ég ekkert sem bendir til þess að sveitarfélögin sem slík ættu að standa að rekstri sorpbrennslustöðvar. Hér er lagt upp með að skoðuð verði tækifæri sem í því felast. Ég minni á þann vísi sem kominn er að því að endurvinna plast á Íslandi, það er einn hugvitsmaður austur í Hveragerði sem hefur fundið leið til að gera það við hverahita, eins hagkvæmt og vistvænt og hægt er. Í þessu tilfelli, að byggja sorpbrennslustöð af hæsta gæðaflokki, get ég ekki betur séð, herra forseti, en að þarna liggi tækifæri fyrir fjárfesta og fyrir hugvitsmenn sem vilja láta muna um sig. Auðvitað munar okkur öll um það, herra forseti, að stíga alvöruskref í umhverfismálum. Af því að margir halda það, og það er reyndar rangt, að Miðflokkurinn sé ekki umhverfisvænn flokkur þá er það bara þannig að í stað þess að vera með tillögur sem lítið munar um þá leggjum við fram alvörutillögur eins og þessa hér sem getur skipt verulega miklu máli fyrir landið allt til framtíðar.