151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:15]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Fjárfesting í innviðum eykur samkeppnishæfni landa og styður við aukinn hagvöxt með aukinni framleiðni hins opinbera og einkageirans. Fjárfesting í innviðum fjölgar störfum og bætir lífskjör. Þrátt fyrir umtalsverða aukningu fjármuna í samgöngumannvirki og aðra innviði á síðustu misserum þá eigum við enn langt í land með að ná ásættanlegri stöðu þegar kemur að innviðum. Við Íslendingar búum svo vel að eiga öfluga lífeyrissjóði og þeir eru okkur mikilvægir, þar liggur sparnaður okkar til efri áranna. Staðan er sú að lífeyrissjóðirnir eru fullir af peningum og þessir peningar þurfa að komast í vinnu.

Í því lágvaxtaumhverfi sem við búum við núna er þörf á arðbærari fjárfestingum til lengri tíma og öruggum fjárfestingum. Fjárfesting í þjóðhagslega hagkvæmum innviðum hlýtur þar að vera áhugaverður kostur fyrir lífeyrissjóði. Ég heyrði það í fréttum um helgina að hæstv. samgönguráðherra hygðist leggja fram tillögur að Sundabraut fljótlega og ég fagna því mjög. Ég hlakka til að sjá þær útfærslur sem koma fram.

Ég vil þá nota tækifærið og minna á þingsályktunartillögu mína frá því í nóvember, mál nr. 317, þar sem við leggjum til að ráðherra verði falið að bjóða út hönnun, fjármögnun, framkvæmd og rekstur Sundabrautar í einkaframkvæmd. Þannig fengju einkaaðilar tækifæri til að glíma við það sem hið opinbera hefur verið með til umræðu í 50 ár, hingað til án árangurs. Þarna leggjum við til að einkaframtakinu verður treyst til að framkvæma verkið frá A til Ö án fjármagns frá ríkinu en fái í staðinn heimild til að rukka veggjöld í ákveðinn tíma.