151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Hæstv. forseti. Fyrir ári lögðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi. Skýrslan hefur nú litið dagsins ljós og er yfirgripsmikil, enda unnin á vettvangi allra ráðuneyta. Í skýrslubeiðninni óskuðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins eftir umfjöllun um það hvort íslenska ríkið ætti með almennum hætti að fara með skipulagsvald vegna helstu grunninnviða landsins á grundvelli þjóðaröryggis. Í umfjöllun skýrslunnar er vísað í niðurstöður átakshóps um úrbætur á innviðum þar sem segir að einfalda þurfi ferlið vegna undirbúnings framkvæmda við flutningskerfi raforku þar sem einstaka þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir hafi tekið langan tíma í stjórnsýslumeðferð.

Í þessum tilgangi leggur átakshópurinn til að lögfest verði heimild til að taka sameiginlega skipulagsákvörðun þvert á sveitarfélagamörk vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku. Unnið er að samningu frumvarps á grunni þessara tillagna. Þetta er mikið fagnaðarefni. Að sjálfsögðu er áfram viðurkennt að höfuðábyrgð á framkvæmd skipulagsmála liggi almennt hjá sveitarfélögunum en um leið áréttað að ríkisvald geti farið með almenna stefnumótun í skipulagsmálum og ábyrgð eftir atvikum. Vísað er til þess að í nágrannalöndum okkar, eins og Danmörku og Noregi, hafa skipulagsyfirvöld á landsvísu sambærilega heimild.

Það er von mín að þessi skýrsla fái djúpa og málefnalega umfjöllun í sölum Alþingis. Við þurfum að blása til sóknar til að tryggja þjóðaröryggi og til þess þurfum við að styrkja og byggja lykilinnviði samfélagsins með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Með leyfi forseta, vitna ég í lokaorð skýrslunnar sem eru:

„Grunninnviðir lands og þjóðar eru ýmist á forræði einkaaðila, ríkis eða sveitarfélaga. Þau sjónarmið hafa komið fram að ríkið fari með skipulagsvald vegna grunninnviða sem varða þjóðaröryggi og landið í heild.“

Hæstv. forseti. Einmitt það er stóra verkefnið sem bíður okkar.