151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Talmeinastofur sjá fram á að geta ekki sinnt mikilvægri þjónustu sinni vegna yfirvofandi skorts á talmeinafræðingum, skorts sem er til kominn vegna þess að nýútskrifaðir talmeinafræðingar verða að vinna hjá ríki eða sveitarfélagi í tvö ár áður en þeir fá að fara á samning hjá Sjúkratryggingum og þar með í vinnu á talmeinastofum. Stöðurnar sem eru í boði hjá ríki og sveitarfélögum hafa aftur á móti verið sárafáar og á sama tíma hlaðast upp biðlistar hjá talmeinastofunum. Það er talið að um 800 börn bíði á höfuðborgarsvæðinu og á landinu öllu hátt í 2.000 börn. Þetta er illskiljanlegt flestum, líkt og svo margt varðandi vegferð ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum.

En það eru ekki bara talmeinafræðingar sem búa við faglega órökstutt skert atvinnufrelsi af hálfu ríkisstjórnar sem í situr m.a. flokkur sem stundum talar um mikilvægi atvinnufrelsis. Það hefur ekki farið hátt í umræðunni en fyrr í þessum mánuði setti heilbrigðisráðherra reglugerð með samsvarandi skerðingarákvæði fyrir sjúkraþjálfun. Nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar þurfa að vinna í tvö ár hjá ríkinu áður en þeir fá að starfa á stofum. Í dag eru ekki nægileg störf hjá ríkinu fyrir alla nýútskrifaða sjúkraþjálfara. Við gætum því verið í þeirri stöðu að nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar þurfi að bíða eftir því að komast í vinnu hjá ríkinu og á sama tíma bíður almenningur enn lengur eftir þjónustu sjúkraþjálfara með tilheyrandi og óþarfa neikvæðum afleiðingum.

Herra forseti. Það eru engin augljós fagleg rök fyrir þessu. Sjúkraþjálfarar sinna fjölbreyttum störfum og verkefnum jafnt inni á ríkisreknum stofnunum sem og hjá sjálfstætt starfandi sjúkraþjálfarastofum. Verkefnin eru einfaldlega hvorki flóknari né merkilegri inni á stofnunum en þau eru á einkastofum. Eftir situr að mönnunarvandi á einkastofum er yfirvofandi, sem er mögulega ætlunin hjá ríkisstjórninni. Vaxandi biðlistar fólks eftir þjónustu sjúkraþjálfara eru þá bara fórnarkostnaður, enn og aftur.