151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:22]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Fyrir hverjar einustu kosningar tala allir verðandi þingmenn um mikilvægi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. En það er bara þannig að þegar fólk er komið hingað inn eða í ráðherrastöðu er erfiðara að tala við þúsundir smáfyrirtækja en fáein risafyrirtæki. Stóriðja hefur því verið galdralausn stjórnmálamanna mjög lengi til að skapa störf. En þegar nánar er að gáð er stóriðja alltaf framkvæmd á kostnað samfélagsins og náttúrunnar og það er ekki bara vandamál hér heldur er það alþjóðlegt vandamál. Fjöldi stjórnmálamanna telur árangur sinn í starfi vera bundinn því að hafa náð að beita sér í þágu stórfyrirtækja, og það er vandamál. Það leiðir að kapphlaupi á botninn og við eigum að hætta þessu.

Samkeppnishæfni Íslands má ekki vera mæld út frá því hversu mikið við erum til í að beygja okkur og bugta fyrir alþjóðlegum stórfyrirtækjum og auðmönnum heldur út frá gæðum hagkerfisins og gæðum samfélagsins. Stóriðja er óumhverfisvæn, jafnvel þegar best lætur. Það er eðlilegt að við spyrjum okkur hversu miklar rauntekjur verði eftir á Íslandi vegna stóriðjunnar, hvert sé hlutfall þeirra af heildarhagkerfinu, sérstaklega þegar við tökum tillit til allra þeirra undanþágna og niðurgreiðslna sem stóriðjan nýtur, og hvernig það fari saman við væntan framtíðarkostnað þess sem við höfum fórnað til að hún megi verða.

Stóriðja þarf kannski ekki endilega alltaf að vera slæm en tilvist hennar er til marks um skort á metnaði og skort á ímyndunarafli, innan stjórnmálanna sérstaklega, og við getum gert betur.