151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:36]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þessa umræðu um stóriðjuna og starfsumhverfi hennar. Ég held að ekki sé nógu oft rifjað upp og farið yfir hversu gríðarlega mikilvægu hlutverki stóriðja gegnir í íslensku atvinnulífi, ekki einungis vegna þeirra starfa sem hún hefur skapað og þeirra verðmæta sem verið er að búa til fyrir samfélagið heldur líka vegna þess sem af henni sprettur, nýsköpun, smáfyrirtæki, ýmis þjónustuiðnaður o.s.frv. Sú vísa er aldrei of oft kveðin.

Hæstv. ráðherra fór ágætlega yfir þá greiningu sem unnin hefur verið á starfsumhverfi stóriðju hér á Íslandi. Ég ætla að taka undir það með hv. málshefjanda að þar var vel að verki staðið og þar kom einn þáttur fram, dreifing eða flutningur á orku, sem við þurfum að vinna betur með. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að við höfum gert þessa greiningu og ég er þess sömuleiðis mjög hvetjandi að við opnum aðgengi að orkusölusamningum og getum farið að tala um orkusölu og verð fyrir orkuna á þann hátt sem sæmir umræðu um jafn mikilvæga starfsemi og hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Það er ekki skrýtið að þingmenn Norðvesturkjördæmis séu áberandi í þessari umræðu hér í dag. Líklega er engin atvinnugreinin jafn burðug eða jafn stór í okkar kjördæmi og jafn mikilvæg og þess vegna skiptir framtíð stóriðjunnar alla þar miklu máli. Hér hafa nokkrir þingmenn einnig rætt um starfsemi á Grundartanga á vettvangi þróunarfélags. Ég vil í lok míns innleggs rifja það upp að við horfðum sérstaklega til þróunarfélaga við gerð fjáraukalaga í fyrstu viðbrögðum við Covid-ástandinu, þar sem fjármunum var veitt til að vinna að þróun á þeim þáttum sem geta sprottið af starfseminni á Grundartanga.