151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[12:26]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er freistandi að fara út í umræðu við hv. þingmann um það sem hann sagði um tjáningarfrelsið, annars vegar um bann við hatursorðræðu, bann sem ég er á móti, og hins vegar um það hvernig ritstjórnarstefna Twitter er. Ég ætla að fara örstutt inn á það og segja að væntanlega styður hv. þingmaður rétt fyrirtækisins Twitter til að haga ritstjórnarstefnu sinni eftir eigin höfði og að geta lokað fyrir aðganga í miðri valdaránstilraun. En það var ekki það sem ég ætlaði að spyrja hv. þingmann um þótt ég vonist til þess að tækifæri gefist til að rökræða það nánar síðar.

Í minnihlutaálitinu frá þingmönnum í þingflokki hv. þingmanns kemur fram þetta álit Stefáns Más Stefánssonar og þar fer hann sérstaklega inn á að það geti verið réttmætt að setja skorður eins og þessar séu málefnaleg sjónarmið fyrir hendi, þar á meðal sjónarmið um meðalhóf. Það er þetta meðalhóf sem vekur athygli mína vegna þess að hv. þingmaður, eins og aðrir hv. þingmenn hér í gær, hefur svolítið farið út í það hvað annað sé hægt að gera eða öllu heldur kallað eftir því að eitthvað annað sé gert, sem mér er enn þá ekki ljóst hvað eigi að vera. En sömuleiðis finnst mér eins og það hafi farið svolítið fram hjá umræðunni að búið er að reyna að setja lögin án þess að hafa þau ákvæði sem frumvarpið boðar. Þannig að frumvarpið er að bregðast við þeirri staðreynd, og það er staðreynd, að gildandi lög án ákvæða eins og þessara hafa ekki virkað. Meðalhóf snýst um það að ganga ekki lengra en þörf er til að ná ákveðnum markmiðum, mjög mikilvægt grundvallaratriði í íslenskri löggjöf. Ég tek alveg heils hugar undir að það þurfi að fullnægja sjónarmiðum um meðalhóf. Ég bara fæ ekki séð hvernig þeim er ekki fullnægt með þessu frumvarpi með tilliti til reynslunnar af gildandi lögum um kynjahlutföll í stjórnum og þeirri staðreynd að það hefur ekki virkað hingað til og þetta hefur ekki gerst sjálfkrafa, svo að ég vitni í orð hv. þm. Brynjars Níelssonar hér í leiðinni.