151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[12:30]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og kemur fram í umsögn Alþýðusambands Íslands hefur þetta þokast bara þokkalega hratt og þokkalega vel í sumum kimum samfélagsins, þannig að þetta hefði greinilega getað gerst hraðar hjá einkahlutafélögum og hlutafélögum. Ég er þannig gerður að ég er frelsisins talsmaður, sér í lagi þegar kemur að tjáningarfrelsi, og ég hlakka til að eiga nánari umræðu við hv. þingmann og vonandi fleiri um tjáningarfrelsi, hvort sem það varðar Twitter eða hatursorðræðu eða hvort tveggja. En þegar kemur að stórum fyrirtækjum finnst mér réttlætanlegra að setja starfsemi skorður vegna þess að ákveðinn munur er á einstaklingi og fyrirtæki og hann er sá að það eru í raun og veru engin takmörk fyrir því hversu stórt og valdamikið fyrirtæki getur verið í hlutfalli við önnur. Eins manns fyrirtæki og 50 manna fyrirtæki eru ekki bara ólík að stærð, þau eru ólík að eðli vegna stærðarmunarins. Þetta á ekki við um manneskjur. Við erum kannski tvisvar, mögulega þrisvar sinnum — við erum meira eða minna svipað stór, meira eða minna svipað sterk og við erum meira eða minna svipað máttug gagnvart hvert öðru og í þeim tilfellum sem við erum það ekki trúi ég á það að við eigum að jafna þann aðstöðu- og valdamun því að ég trúi á valddreifingu og jafnrétti. Þegar kemur að fyrirtækjum sem eru mjög stór, og við erum að tala um 50 manna fyrirtæki eða meira sem eru að mínu mati stór á íslenskan mælikvarða, þykir alveg réttlætanlegt að setja skorður eða refsingar, má kalla það, til þess að þau framfylgi lögum sem er búið að setja, þegar það liggur fyrir að þau lög virka á þau félög sem, fyrirgefið orðbragðið, virðulegi forseti, drattast til að laga sín mál. Í ljósi þessa þykir mér augljóst að það að ganga lengra en gildandi lög uppfylli kröfu um meðalhóf. Það er mitt álit.

Að því sögðu vil ég á lokasekúndunum fagna því að þetta fari til umræðu í atvinnuveganefnd, þar sem ég sit, á milli 2. og 3. umr. og mun taka þátt í þeirri umræðu. Ég hef ekki enn þá heyrt neitt sem fær mig til að skipta um skoðun. Ég ber alveg virðingu fyrir því að við þurfum að gaumgæfa þetta vel. En mitt álit er að það hafi þegar verið gert.