151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[13:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég vona að nefndin nái skynsamlegri niðurstöðu þó að okkur greini hugsanlega á um hvaða niðurstaða þætti skynsamlegust. Ég er dálítið hugsi yfir því sem hv. þingmaður fór stuttlega yfir seint í ræðu sinni um að áhugasvið fólks væri misjafnt og að þar væri einhvers konar tölfræðilegt samhengi, vil ég segja, við kyn þess. Svo má vel vera. En látum það liggja á milli hluta í sjálfu sér.

Þetta vakti mig til umhugsunar vegna þess að ég kem úr geira sem hefur í gegnum tíðina verið alveg ofboðslega karllægur, sem er tölvugeirinn, hugbúnaðargerð og þess háttar. Það hefur verið að breytast blessunarlega til hins betra seinustu árin og mörg okkar í geiranum hafa velt fyrir sér hvort það sé eitthvað við eðli hugbúnaðargerðar sem laðar meira að sér karlmenn en kvenmenn. Ég fæ ekki betur séð, bæði af samtölum við aðra í geiranum og líka með því að fylgjast með hvernig þessi góði bransi er að þróast í rétta átt, að það sem hafi verið fælandi hafi verið viðmótið sem konur fá og hafa fengið í þeim geira, viðmót sem karlarnir síðan, um leið og umræðan er opnuð, kannast alveg við og kvarta jafnvel undan sjálfir en af einhverjum ástæðum, líffræðilegum eða öðrum, virðast eiga auðveldara með að starfa undir. Það er af þessum ástæðum sem ég er ofboðslega efins um að við getum notað einhvern hugsanlegan náttúrulegan og tölfræðilegan mun á áhugasviði kynjanna sem einhvers konar mótrök í því að berjast gegn þessu sem virðist vera sértækt áhugasvið tölfræðilega séð. Ég fæ ekki séð með hliðsjón af þessu að við getum í raun og veru látið okkur hafa það einfaldlega, (Forseti hringir.) að konur, karlar og fólk af öðrum kynjum hafi ólík áhugasvið bara með því að lesa tölfræðina. Það eru fleiri (Forseti hringir.) þættir en áhugasviðið sjálft sem veldur mismunun innan hvers geira samkvæmt minni reynslu.