151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[13:08]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef bara eiginlega alla mína hunds- og kattartíð starfað í karllægum bransa, og er karl sjálfur, þannig að ég get ekki gert upp á milli þess hvort það sé erfiðara fyrir karla að reyna að komast í kvennastörf, hefðbundin kvennastörf, eða öfugt. Ég þekki það hreinlega ekki, alla vega ekki af eigin reynslu. Hins vegar þykir mér, þar sem hv. þingmaður tekur undir þetta, það blasa við að einmitt í þeim geirum þar sem hlutverkin hafa talist hefðinni samkvæmt tilheyra einhverju kyni frekar en öðru, að það sé einmitt þar sem þarf að koma inn fjölbreytninni til að brjóta upp þessar staðalímyndir og brjóta upp þessar venjur, til dæmis að hafa konur í stjórn hugbúnaðarfyrirtækis, enda þótt 90% forritara á einhverjum tímapunkti hafi verið karlmenn. Það er einmitt staðan sem við sjáum, að það séu bransar þar sem tölfræðin virðist segja okkur að þeir henti á einhvern hátt betur öðru kyninu. Það þurfum við að brjóta upp. En mér þykir það vera rök fyrir frumvarpinu.

Í framhaldi af því varðar frumvarpið og lögin fyrirtæki þar sem eru 50 starfsmenn eða fleiri. Stjórnunarstarf er ekki alveg sama starf og kannski starf þar sem starfsmennirnir sjálfir eru að vinna í og aftur get ég tekið dæmi úr hugbúnaðargeiranum. Viðkomandi þarf ekki endilega að vera forritari til að vera stjórnarmaður í hugbúnaðarfyrirtæki. Þetta eru eðlisólík störf. Það hjálpar ef viðkomandi hefur innsýn inn í það, kannski einhverja smáreynslu. En það þarf ekki að vera múrari til að vera í stjórn múrarafyrirtækis sem telur 50 manns eða fleiri. Það þarf ekki að vera bókhaldari til að vera í stjórn bókhaldsfyrirtækis sem telur 50 manns eða fleiri, enda þykir mér alveg málefnalegt að láta þessi lög gilda um fyrirtæki af ákveðinni stærðargráðu af þessum ástæðum.

Ég skil sjónarmiðið þegar kemur að smáum fyrirtækjum (Forseti hringir.) þar sem mengið sem fólk hefur um að velja er lítið. Ég sé ekki að það sé lítið þegar við erum að tala um fyrirtæki sem telja 50 starfsmenn eða fleiri.