151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:33]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar. Varðandi þessi tvö atriði, útgöngubann og skyldubólusetningu á landamærum — til að það sé tekið alveg skýrt fram þá var um að ræða skyldubólusetningu á landamærum — var sáralítil umræða um það í nefndinni af því að í fyrstu drögum nefndarálits sem kom frá meiri hluta nefndarinnar, væntanlega eftir umræðu þar innan búðar, var búið að taka þetta út þannig að umræðan átti sér í rauninni ekki stað. Það var bara búið að taka þetta út og stjórnarandstaðan var væntanlega að koma að þeim drögum í fyrsta sinn, en þó varð heilmikil umræða um þau og fjölmargt annað sem breyttist. Hún þurfti ekkert að koma að þessum tveimur punktum varðandi útgöngubann og skyldubólusetningu á landamærum á þeim tímapunkti því það var bara búið að taka þetta út. En það voru fjölmörg önnur atriði sem voru lagfærð, hliðrað til og þess háttar og það var bara í fullri sátt og heilmikil vinna sem fór í það. En þessi tvö atriði voru sem sagt farin út.