151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég náði reyndar ekki alveg upphafinu en sat hér uppi og heyrði obbann af ræðunni. Ég er hins vegar að velta fyrir mér þessum pælingum eða vangaveltum um að sumir vilji skylda alla í bólusetningu. Nú man ég ekki hvort fordæmi eru fyrir því á Íslandi að við setjum slíka reglu eða ákveðum að fólk hafi ekki val um hvort það fari í bólusetningu. Það kann þess vegna að vera að engin fordæmi séu fyrir því einu sinni.

Mig langar aðeins að heyra í þingmanninum um það hvort einhver áhætta geti falist í því að skylda ekki alla í bólusetningu og þá um leið að hún fari kannski aðeins betur yfir sjónarmiðið um að fólk eigi að hafa val. Það er alveg „valid“ sjónarmið, það er ekkert að því að hafa þá skoðun. En það er hins vegar svolítið mikilvægt að við heyrum líka rökstuðninginn fyrir því hvers vegna fólk eigi ekki að hlíta því að fara í bólusetningu. Ég ætla sjálfur í bólusetningu og er búinn að taka ákvörðun um það. Mér finnst í sjálfu sér að maður væri að sýna ákveðna ábyrgð með því. En maður þarf líka að skilja að sumir eru kannski hræddir við þetta, sumir hafa ekki trú á þessu og sumir eru kannski hræddir við að veikjast. Það eru náttúrlega dæmi um það. Þá veltir maður fyrir sér: Er of langt gengið með þeim hugsunargangi að setja það sem skyldu að allir verði að fá bólusetningar? Þá væri forvitnilegt að heyra: Ef þingmaðurinn telur að það eigi ekki að vera þannig, hvers vegna ekki?