151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[17:30]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það var kannski svolítið ósanngjarnt að spyrja svona. Mér til málsbóta verð ég að segja að mér hefur oft þótt gott að hlusta á hv. þingmann fjalla um stjórnmál og sjá með hvernig gleraugum viðkomandi þingmaður horfir á lífið og tilveruna. Þess vegna treysti ég þingmanninn til að velta þessari spurningu fyrir sér. En það sem komið hefur fram í ræðum hér, og meira að segja eitthvað áður, er hvort stjórnvöld hefðu ekki átt að stíga fyrr inn í stað þess að skýla sér alltaf á bak við sóttvarnayfirvöld. Þar með hefði þingið eða stjórnmálin getað komið fyrr að þessum annars mjög viðkvæmum málum. Ég vil að það komi fram.