151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

aðgerðir gegn atvinnuleysi.

[14:18]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Frá því í vor höfum við í Samfylkingunni kallað eftir því að ríkisstjórnin bregðist með kröftugri og djarfari hætti við fjöldaatvinnuleysi og óvissu í efnahagslífinu. Síðustu fjárlög ríkisstjórnarinnar voru veik að þessu leyti. Einungis var gert ráð fyrir að atvinnuleysi minnkaði um 1 prósentustig á næsta ári. Ný þjóðhagsspá Íslandsbanka staðfestir þessa gagnrýni. Höfundar telja að atvinnuleysi verði töluvert meira en áður var gert ráð fyrir og að fjárfesting hins opinbera verði minni en áður var vonað. Yfir 26.000 manns eru nú atvinnulaus og gerir spáin ráð fyrir að 9–10% verði atvinnulaus á næsta ári. Það er skynsamlegt í stöðunni að ríkið nýti góð lánakjör og fjárfestingarsvigrúm til að ráðast með miklu kraftmeiri hætti í að auka verðmætasköpun, skapa atvinnu og undirbyggja nýjar útflutningsgreinar og, síðast en ekki síst, beini miklu meiri stuðningi til heimila þeirra sem verst fara út úr kreppunni. Í stuttu máli: Ríkisstjórnin skapar ekki nægilega mörg störf í sögulegri atvinnukreppu, tryggir ekki atvinnuleitendum mannsæmandi stuðning á erfiðum tímum og ræðst ekki með nægilega kröftugum hætti í opinberar fjárfestingar. Við horfðum upp á samdrátt í opinberri fjárfestingu í fyrra og það er þrátt fyrir mjög umfangsmiklar fjárfestingar Reykjavíkurborgar. Ef fram heldur sem horfir komumst við seint á lappir og þegar landinn hefur verið bólusettur förum við löskuð af stað og þá sérstaklega þau sem hafa verið svo óheppin að missa vinnuna og kreppan bitnar harðast á.

Því óska ég eftir skýrum svörum frá hæstv. fjármálaráðherra: Eru einhver áform um að auka enn frekar við opinbera fjárfestingu? Mun ríkisstjórnin koma betur til móts við öll þau sem komu verst út úr þessari kreppu, og þá hvernig?