151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

sameining sveitarfélaga.

[14:45]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Sameining sveitarfélaga er viðkvæmt og flókið mál og ekki bætir úr skák þegar lögþvingun er beitt en íbúar sveitarfélaganna vilja ráða því á hvaða forsendum þeir ræða sameiningu og við hverja. Flestir eru á því að sameiningu fylgi samlegðaráhrif í rekstri þjónustu, lægri kostnaður við yfirstjórn o.fl., þess vegna sé eftirsóknarvert að fækka sveitarfélögum, einkum þeim minni. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja markið við 1.000 íbúa og lagt fram frumvarp í þá veru. Nokkur smærri sveitarfélög lögðu til á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga að horfið yrði frá stuðningi við þá stefnu. Tillagan var reyndar felld með 55% atkvæða á því þingi en engu að síður lýsir þetta verulegum ágreiningi um aðferðafræðina. Mörg sveitarfélög reka nú þegar saman ýmsa grunnþjónustu á borð við grunnskóla án þess að hafa sameinast. Því hefur verið velt upp hvort samrekstur af því tagi sé ekki betri forsenda sameiningar en tiltekinn íbúafjöldi. Sjái sveitarfélög nú þegar hag íbúa sinna best borgið með sameiginlegum rekstri grunnskóla, er það ekki betri vísbending um þörf á sameiningu en hvort íbúafjöldi er ofan eða neðan við töluna 1.000?

Herra forseti. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvaða afstöðu hann hefur til slíkra hugmynda. Er hann tilbúinn til að fallast á málamiðlun af þessum toga til að freista þess að ná ríkari sátt og betri árangri í sameiningarmálum?