151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

orkuskipti í flugi á Íslandi.

330. mál
[16:10]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég gat ekki látið hjá líða að taka hér til máls enda hv. umhverfis- og samgöngunefnd að stela málinu mínu. Nei, herra forseti, þetta var reyndar léleg tilraun til djóks og ég biðst velvirðingar. Ég varð að koma upp til að þakka hv. umhverfis- og samgöngunefnd fyrir að taka upp mál sem ég lagði fyrst fram í fyrra, og reyndar aftur í haust, um rafvæðingu innanlandsflugs. Raunar ganga þau í nefndinni örlítið lengra en ég hafði gert sem ég tel einnig fagnaðarefni, þ.e. horfa til fleiri orkugjafa. Við þingmenn erum oft sökuð um að hafa ekki málefnin alltaf í fyrirrúmi í afgreiðslu þingsins en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það sé ekki raunin, a.m.k. ekki með flesta þingmenn. Málefnin skipta nefnilega meira máli en hvert og eitt okkar og það gildir svo sannarlega í þessu máli eins og öðrum. Ég fagna því raunverulega að umhverfis- og samgöngunefnd mæli fyrir þessu mikilvæga máli. Það er óhætt að segja að þróunin á þessu sviði sé gríðarhröð og má til marks um það benda á að þegar ég lagði málið mitt fram í fyrra þótti það sæta furðu að verið væri að tala um rafvæðingu flugs enda væri það eitthvað sem myndi eiga sér stað langt inni í framtíðinni og ekki tímabært að ræða. En nú, herra forseti, ári síðar, er mikilvægi þess að við afgreiðum þetta mál og förum fyrir alvöru að vinna að því enn meira en áður, þ.e. ef við ætlum ekki að sitja eftir hvað varðar orkuskipti í flugi. Eins og hv. þingmenn sem töluðu á undan mér komu inn á þá gæti þetta nefnilega líka verið alger bylting í innanlandssamgöngum og því til mikils að vinna, bæði hvað varðar loftslagsmálin og að geta byggt á okkar eigin grænu orku en einnig hvað varðar tíðni og kostnað íbúa við nýtingu innanlandsflugs.

Ég vil því einfaldlega beina því til hv. umhverfis- og samgöngunefndar að lokum að staðið verði við, eins og kemur fram í greinargerð málsins, að hafa mál mitt einnig til hliðsjónar við vinnslu málsins þó að því miður hafi ekki enn verið færi á að mæla fyrir því í þingsal. Ég vona af öllu hjarta að á þennan hátt aukist líkurnar á því að málið verði unnið hratt og örugglega innan nefndarinnar og vonandi samþykkt samhljóða síðar í vor.