151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:35]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ætli ég byrji ekki á þeirri gullnu setningu að segja: Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt frekar. En ég er að sjálfsögðu að því með því að koma hingað upp. Mig langar að segja að ég fagna framlagningu þessa frumvarps og tel eðlilegt að farið sé reglulega yfir þingsköpin okkar. Út frá þeirri umræðu sem var áðan, sem fór kannski svolítið vítt og breitt, um þingið sem vinnustað, ýmislegt sem hér er mjög vel gert og annað sem við gætum örugglega bætt okkur í, þá langar mig að segja að ég held að við höfum náð töluverðum árangri á síðustu misserum með því einmitt að auka fyrirsjáanleika. Ég tel að þær breytingar sem nú er verið að gera í tilraunaskyni á skipulagi í þessum séu til bóta og ég er spennt að sjá niðurstöður þess.

Það er þó eitt sem ég hef reglulega bent á í þessum ræðustól og það er lengd þingfunda eða hvað við höldum langar ræður. Það er auðvitað ekki tekið á því í þeim breytingum sem hér eru undir. Við höfum þó farið í ákveðnar breytingar þar sem forseti heimilar ekki lengur andsvör við samflokksmenn nema alveg ljóst sé að um raunveruleg andsvör sé að ræða, eitthvað sem var nauðsynlegt að breyta að mínu viti. Ég tel að þingheimur þurfi að taka sig svolítið saman í andlitinu varðandi þessa þætti og að eina leiðin til að nálgast þetta sé að við komum okkur saman um að óeðlilegt sé að þingmenn fari upp í ræðustól og haldi langar ræður. Og ég ætla bara að leyfa mér að segja það, virðulegur forseti; langar og leiðinlegar ræður. Það er alla vega mín skoðun að langar ræður séu yfirleitt frekar leiðinlegar. Þegar við erum til að mynda að ræða fjárlögin og talsmenn flokka, eða þeir sem mæla fyrir nefndarálitum, fá tvöfaldan tíma, sem er klukkutími, þá eru það auðvitað alveg ofboðslega langar ræður og langir dagar sem settir eru undir.

Við vitum að þótt það sé þannig í flestum ríkjum að málfrelsi megi ekki hefta, og maður er ekki að tala fyrir því hér, þá eru samt verklagsreglur eða hefðir hjá nágrannaþingum okkar sem taka svolítið á þessu. Þar er meiri fyrirsjáanleiki í því hvaða mál eru á dagskrá og hverjir ætla þá að taka þátt í umræðunni. En þetta er auðvitað flókið og ég átta mig á því að það eru kostir og gallar við ýmis skipulög. Ég skil alveg þau sjónarmið sem hafa komið hér fram varðandi stöðu þeirra sem eru í minni hluta og mikilvægi þess að valdefla þau og að minni hlutinn hafi eitthvert annað hálmstrá en að fara í langar ræður og stöðva eðlilega framþróun þingmála.

Það sem ég er kannski að reyna að koma að hér er að þótt ekki sé farið í það að þessu sinni að vinna með lengd ræðutíma þá finnst mér það vera mál sem við þurfum að ræða og þurfum að halda vakandi. Ég ætla líka að leyfa mér að benda á að þingsköpin eru engu að síður oft ágætur rammi. Við eigum það til að semja um umræður, til að mynda hefur svolítið verið gert af því að semja um umræðurnar þegar ráðherrar mæla fyrir skýrslu, að þá eigi hver og einn flokkur ákveðið margar mínútur undir eða ákveðið marga ræðumenn. Ég hugsa að fegurðin í því sé ákveðinn fyrirsjáanleiki, að þá vitum við hversu langan tíma tekur að ræða umrætt mál. En mér finnst umræðan þá oft verða leiðinlegri. Þess vegna held ég að oft sé betra að við höldum okkur við þingsköpin og fólk reyni frekar að hafa ræðurnar sínar styttri og hnitmiðaðri og við séum þá líka duglegri að fara í andsvör hvert við annað og eiga þetta samtal sem stundum getur virkað svo ofboðslega vel í þessum sal og getur oft leitt okkur svolítið áfram á þeim málfundi sem þessi salur á vissulega líka að vera.

Svo ætla ég bara að geta þess að ég held að mikilvægt sé að hnykkja aðeins á þessu með stjórnsýsluna í kringum þingið, taka á hlutanum er varðar starfsmenn og annað. Svo má velta fyrir sér siðareglunum, af því að minnst var á þær. Það er kannski alveg sérstök umræða sem verður tekin í tengslum við þær þegar við þurfum á því að halda. Ég hef svo sem áður lýst því yfir að ég tel að fyrirkomulagið sem við búum við í dag sé ekki nógu gott og ég hef ekki séð fullkomna leið til að komast út úr því. Að því sögðu fagna ég því að frumvarpið sé fram komið og hvet okkur til að halda áfram að ræða hvernig við stundum sem vönduðust vinnubrögð hér og stýrum því að þessir málfundir séu áhrifaríkir og við heyrum raunveruleg sjónarmið og skoðanaskipti þeirra sem eru kosnir til að sitja í þessum sal frekar en það séu fáir sem tali lengi og mikið og oft sitji kannski bara tiltölulega lítið eftir í slíkum umræðum.