151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[18:44]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að bregðast við því sem hv. þm. Brynjar Níelsson talaði um að þingmenn og jafnvel fólk sem ekki er þingmenn væri að kvarta undan ofbeldi á Alþingi eða það sem hefur komið fram í umræðunni um að þessi vinnustaður sé e.t.v. ekki sá fjölskylduvænsti á meðan þingið er í gangi. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að upplifun þingmanna geti t.d. verið ólík eftir því hvort þeir eru í stjórnarandstöðu eða í meiri hluta hvað þá hluti varðar sem um er að ræða hér í kvöld. Eins hvort það geti horft öðruvísi við ef maður er í minni þingflokki á móti því að vera í stærri. Því minni sem þingflokkurinn er því erfiðara getur það verið og torveldara að manna til að mynda nefndir.

Að lokum langar mig að spyrja hv. þingmann hvort þetta geti líka horft ólíkt við fólki eftir því hvar það er statt í lífinu. Ég á fjögur börn, sú yngsta verður átta ára á þessu ári og elsti er tvítugur. Það er eiginlega fyrst núna sem ég tel mig með góðu móti getað sinnt þessu starfi af heilum hug og einurð af því að þau eru orðin þetta gömul og ég hef alveg gríðarlega sterkt bakland. Faðir barnanna er frábær faðir og ég er rosalega lánsöm. Hvað þessa hluti varðar er ég er lánsöm. En það eru það ekki allir og það hlýtur að takmarka aðgengi þeirra sem vilja starfa á þessum vinnustað t.d. hvar þeir eru staddir í lífinu. Eða er hv. þingmaður ekki sammála mér í því?