151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

breyting á útlendingalögum til að hemja útgjöld og auka skilvirkni í málsmeðferð.

389. mál
[20:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stærsti vandinn eða næststærsti, eða kannski næstnæststærsti, vandinn sem ég sé í heiminum í dag er það að verið er að vekja ótta fólks vegna rangfærslna um það hver raunveruleikinn er. Þegar hv. þingmaður talar um „galopin landamæri“ og „opinn krana“ þá er hv. þingmaður að tala um raunveruleika sem er ekki til staðar og það vekur ótta fólks á röngum forsendum.

Hv. þingmaður spurði hér að lokum um það hvað við gætum gert með tilliti til fjármagns, hvað við gætum tekið við mörgum. Það fer allt eftir því hvernig við tökum á móti fólki. Þetta er sá hluti sem ég held að hv. þingmaður heyri kannski ekki alveg nógu vel. Hingað kemur manneskja frá Frakklandi. Þá kemur hún bara inn í landið og er bara hér, kostar enga peninga, bara býr hér, fær sér vinnu og kaupir sér Cheerios og snakk og guð má vita hvað; er bara einstaklingur í íslensku samfélagi og hluti af hagkerfinu. Hvað kostar það Útlendingastofnun? Eitthvað í kringum 0 kr., myndi ég giska á. Ég þekki ekki hver umsýslukostnaðurinn er í kringum skriffinnskuna um það, en ég myndi giska á það í fljótu bragði. Að hleypa einhverjum inn án þess að gera neitt til að styðja við viðkomandi, fyrir utan skriffinskuna og vegginn og verðina á veggnum, sem kosta heilmikið, og eru reyndar ástæðan fyrir þeim kostnaði sem hv. þingmaður segist vera að reyna að lækka — það er væntanlega einhver kostnaður við að styðja fólk inn í samfélagið sem við viljum gera. Það er ekkert hægt að svara svona spurningum, virðulegi forseti, nema við séum búin að ákveða hvað við ætlum að reyna að gera.

Vandinn við tillögu eins og þessa orðræðu úr átt hv. þingmanns er það að markmiðið er að halda fólki úti. Það er ekki rétta markmiðið til að spara peninga. Peningasparnaðurinn er að mínu mati bara til málamynda, afsökun fyrir því að finna einhverjar leiðir til að geta haldið útlendingum úti. Mér finnst þetta meira að segja frekar augljóst. Hv. þingmaður fór aðeins út í það að hann hefði fengið sínar heimildir frá einhverjum jafnaðarmönnum í Noregi og Danmörku. Með fullkominni virðingu fyrir hv. þingmanni og því ágæta fólki þá er mér bara slétt sama. Það kemur því ekkert við hvaða áhrif þessi tillaga hefur. Það kemur þeim staðreyndunum ekkert við hvernig hlutirnir hafa virkað í Evrópu. (Forseti hringir.) Eins og jafnaðarmenn geti ekki haft rangt fyrir sér í Skandinavíu ef þeir eru forsætisráðherrar. Er það virkilega boðskapurinn hérna? Ég held ekki. Ég alla vega trúi honum ekki.