151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

mótun stefnu Íslands um málefni hafsins.

359. mál
[21:33]
Horfa

Flm. (Guðmundur Andri Thorsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli öðru sinni fyrir þessari þingsályktunartillögu. Hafið er sjálf forsenda tilveru okkar Íslendinga. Það umlykur okkar litla samfélag. Það er matarkista þjóðarinnar, enda eru hér alveg einstök fiskimið sem helgast af því að hér mætast kaldir straumar úr norðri og hlýir straumar úr suðri með þeim afleiðingum að við landið hafa fundist 340 tegundir fiska. Þetta einstæða lífríki laðaði menn hingað til veiða og hér hafa verið verstöðvar lengur en land hefur verið byggt, hvenær svo sem það hefur verið, og frá 14. öld hafa Íslendingar selt fisk á alþjóðamörkuðum og haft af því umtalsverðar tekjur, sem hafa að vísu gegnum aldirnar nýst misvel. Mikilvægi hafsins fyrir íslenska þjóð verður aldrei nógsamlega undirstrikað.

Nú er það svo, eins og kemur fram í greinargerð frumvarpsins, og skal ekki lítið gert úr því, að þau þrjú ráðuneyti sem nefnd hafa verið í þessari þingsályktunartillögu hafa þegar með sér nokkurt samstarf undir forystu utanríkisráðuneytis. Starfshópur var skipaður árið 2017 sem hafði með höndum að samræma það hvernig Íslendingar kæmu fram á alþjóðavettvangi í málefnum hafsins og voru þar eingöngu fulltrúar viðkomandi ráðuneyta. Árin 2018 og 2019 höfðu þessi ráðuneyti með sér samstarfshóp þar sem líka sátu fulltrúar frá samtökum í sjávarútvegi og hafði sá hópur með höndum að móta stefnu Íslands í svonefndum BBNJ-samningaviðræðum sem snúast um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni og gerð samnings þar um undir hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Sá samráðshópur var reyndar ekki nefndur í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra til Alþingis 2020.

Árið 2004 var sett fram samræmd stefnumörkun í málefnum hafsins af hálfu þáverandi ríkisstjórnar, gefin út í veglegu riti undir nafninu Hafið og var mikilvægt skref á sínum tíma. En nú eru aðrir tímar og önnur viðhorf og nýjar áskoranir. Það er óhætt að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan og almenn þekking á þeim ógnum sem stafa af loftslagsbreytingum sé orðin miklu meiri en þá var, t.d. á súrnun sjávar og plastmengun. Nú til dags er almennt litið á umhverfisverndarsamtök sem samherja í þessari baráttu frekar en ógnvald og óvin.

Þingsályktunartillagan er tilraun til að nálgast þetta mikilsverða málefni á víðari hátt en stjórnsýslan gerir í því augnamiði að festa í sessi ákveðin grundvallaratriði sem Íslendingar eiga að halda í heiðri í stefnu sinni og tryggja aðkomu fleiri sjónarmiða við það starf, ekki síst sjónarmiða náttúruverndar. Tillagan er líka tilraun til að árétta að hafréttarstefna Íslendinga skuli taka mið af því að við erum strandveiðiþjóð og við eigum ævinlega að skipa okkur þar í flokk. Þetta er tilraun til að horfa á málefni hafsins út frá nýjustu upplýsingum og ekki bara til að halda til haga rétti okkar til veiða og kröfugerð þar að lútandi heldur líka verndarsjónarmiðum í þessu stærsta vistkerfi heims sem hafið er. Til lengri tíma eru það hagsmunir okkar allra.

Meðal þess sem mætti hafa í huga í því starfi eru eftirfarandi atriði: Að Ísland vinni gegn hnignun líffræðilegs fjölbreytileika með Aichi-markmiðin að leiðarljósi og taki forystu í fyrrgreindum samningaviðræðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni í hafinu utan lögsögu ríkja, þ.e. fyrrnefnt BBNJ; að fylgt sé fast eftir stefnu Íslands um afnám ríkisstyrkja í sjávarútvegi; að nýtt séu þau tækifæri sem felast í 14. sjálfbærnimarkmiði Sameinuðu þjóðanna um vernd og sjálfbæra nýtingu hafsins, einkum aðgerðir gegn mengun sjávar, súrnun vegna aukinnar losunar á koltvísýringi, verndun vistkerfa hafsins og eflingu viðnámsþróttar þeirra, um verndun fiskstofna og jafnframt um að tryggja möguleika fátækari þjóða til efnahagslegrar þróunar; að Ísland beiti sér fyrir því á vettvangi Norðurskautsráðsins og Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar að bruni svartolíu sem eldsneytis fyrir skip og flutningur svartolíu á norðurslóðum verði bannaður líkt og IMO hefur samþykkt við suðurheimskautið, þ.e. sunnan 66. breiddargráðu. Enn fremur verði bannað að flytja svartolíu um norðurslóðir, þ.e. svæðið norðan við 66. breiddargráðu, en bannið taki einnig til efnahagslögsögu Íslands og væntanlega einnig til Grænlands, Færeyja og Noregs. Þá ber að hafa í huga að svartolía er gríðarlega eitrað og seigfljótandi skipaeldsneyti sem brotnar afar hægt niður í lífríki sjávar, alveg sérstaklega á kaldari svæðum eins og í Norðurhöfum. Verði skipsskaði eða sjóslys gæti það orsakað óbætanlegan skaða á fiskimiðum okkar enda er nánast vonlaust að hreinsa svartolíu úr hafinu. Bruni svartolíu veldur líka auknum gróðurhúsaáhrifum á norðurslóðum þegar sótagnir sem myndast setjast á ís og jökla og dekkja yfirborðið. Þá minnkar endurkast sólarljóss frá ís og jöklum og þeir bráðna hraðar. Áhrifaríkasta leiðin til að draga úr gróðurhúsaáhrifum á norðurslóðum er að banna alfarið notkun svartolíu.

Í þessu sambandi er líka full ástæða til að taka til endurskoðunar stefnu Íslands á vettvangi Alþjóðahvalveiðiráðsins enda ljóst að barningur undanfarinna ára og áratuga hefur lítinn sem engan árangur borið þrátt fyrir gríðarlegan tilkostnað. Þar má nefna að Ísland endurskoði stefnu sína á vettvangi CITES-samningsins, enda ljóst að markmið Íslands um að hvalir verði færðir um verndarflokk munu ekki nást í fyrirsjáanlegri framtíð. Íslendingar þurfa líka að snúa afdráttarlaust af braut olíuvinnslu á Drekasvæðinu enda er ljóst að frekari leit eftir nýjum olíu- eða gaslindum stenst engan veginn það samkomulag sem var gert í París um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Í þessu sambandi er vert að minna á frumvarp hv. þm. Andrésar Inga Jónssonar um frystingu olíuleitar frá síðasta þingi sem ekki hlaut afgreiðslu en ástæða er til að ætla að verði endurflutt á þessu þingi. Í því sambandi er tímabært að Ísland leggi fram trúverðuga áætlun um þátttöku í sameiginlegu átaki Evrópusambandsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda með þeim fyrirvara að 55% samdráttur ESB-ríkja fyrir 2030 miðað við 1990 muni hvergi nærri duga til að ná því markmiði að halda hlýnun andrúmsloftsins undir 2°C, hvað þá 1,5°.

Mikilvægt er í allri þessari vinnu að haft verði samráð við frjáls félagasamtök um stefnumótun í málefnum hafsins. Íslendingar þurfa að hafa í huga niðurstöður IPCC um áhrif loftslagsbreytinga á hafið. Á grundvelli slíkrar skýrslu IPCC frá september 2018 verður unnt að ræða málefni hafsins á grundvelli Parísarsamkomulagsins á sama hátt og verndun regnskóga hitabeltisins.

Virðulegi forseti. Þessi tillaga er lögð fram í þeirri trú að nú sé brýnna en nokkru sinni að mótuð sé heildarstefna hér á landi um málefni hafsins sem taki til loftslagsbreytinga, sjálfbærrar nýtingar og verndunar líffræðilegs fjölbreytileika. Það er líka mikilvægt að í þessum málefnum séu Íslendingar samkvæmir sjálfum sér og trúverðugir. Frá því að Íslendingar fengu yfirráð yfir eigin fiskimiðum byggðist hafréttarstefna þjóðarinnar um árabil á hugmyndinni um rétt strandríkja til að stjórna nýtingu auðlinda innan eigin lögsögu á grundvelli hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna. Það markmið náðist þegar samningurinn var undirritaður í Jamaíku árið 1982 og hann varð að alþjóðalögum árið 1994 þegar tilskilinn fjöldi aðildarríkja hafði fullgilt samninginn. Hann tók gildi hér á landi þegar Alþingi fullgilti hann árið 1985, fyrst vestrænna ríkja. Á þeim árum sem liðin eru síðan hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna var gerður hafa bæst við margar og gríðarlega miklar áskoranir í umhverfismálum og árið 1982 voru loftslagsbreytingar næstum óþekkt hugtak. Það er einungis ríflega áratugur frá því að súrnun sjávar varð þekkt. Íslenskar útgerðir og útgerðarfyrirtæki í eigu íslenskra aðila hafa frá árinu 1993, þegar Smuguveiðarnar voru stundaðar héðan af miklu kappi en minni forsjá, sótt á fiskimið á alþjóðlegum hafsvæðum og líka innan efnahagslögsögu ríkja í þriðja heiminum, oft með skelfilegum afleiðingum. Ísland hefur í auknum mæli verið þátttakandi í svæðisbundnum samningum sem snerta verndun og nýtingu Atlantshafsins og síðastliðið vor fullgilti Alþingi samning um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins. Þar að auki eru fleiri svæðisbundnir samningar sunnar á hnettinum en víða eru svæði sem njóta engrar verndar og sjóræningjaveiðar eru enn stundaðar víða á þeim svæðum. Í slíkri iðju eiga Íslendingar ekki að taka þátt.

Virðulegi forseti. Þessi ályktun er ekki lögð fram vegna þess að fyrsti flutningsmaður sé sérfræðingur í hafrétti eða fiskveiðum. Öðru nær. Ég tel hins vegar að það sé afar mikilvægt að það komi til kasta Alþingis að móta stefnu í þessu málefni en að það sé ekki eftirlátið hagsmunasamtökum í sjávarútvegi eða embættismönnum í ráðuneytum utanríkismála, sjávarútvegs eða að einhverju leyti umhverfismála, að þeim öllum ólöstuðum. Ég held að mikilvægt sé að umræða eigi sér stað um slíka stefnu á þessum vettvangi og mér finnst mikilvægt að slík stefna sé heildstæð og að komið sé að henni úr ólíkum áttum. Ég tel mikilvægt að hún sé mótuð í samráði við almenning þannig að hún stefni í eina átt og þjóni almannahagsmunum, þjóðarhagsmunum, og sé til þess fallin að vernda lífríki sjávar og nýta með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Er þá höfð í huga sú skilgreining á sjálfbærni að hún þurfi að byggja á vistkerfislegri nálgun, ekki ganga á stofninn en sé líka fjárhagsleg og félagsleg og sé skýr og til þess fallin að mæta þeim ógnum sem steðja að þessu lífríki nú þegar súrnun sjávar hefur ekki verið meiri í 20 milljónir ára. Hér fara hagsmunir okkar allra saman sem Íslendinga, sem borgara á plánetunni jörð og hér þurfa allir að leggjast á eitt, lögspekingar, sjómenn, náttúruverndarar, útgerðarmenn, vísindamenn og stjórnmálamenn. Að svo mæltu fer ég fram á það, herra forseti, að tillagan verði send til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.