151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:39]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Landsbyggðarskattur á kostnað heilsu er fyrirsögn á grein sem birtist á visi.is rétt áðan eftir Díönu Jóhannsdóttur og Sif Huld Albertsdóttur. Þar fjalla þær bæði um aðgengi landsbyggðarfólks að heilbrigðisþjónustu í víðum skilningi og svo kostnaðarþátttökuna við að nýta sér aðgengið hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta mál er einmitt svolítið stórt landsbyggðarmál. Kerfin og umfjöllunin virðast alltaf snúa að því þar sem notendurnir eru flestir og vera sem næst þeim stöðum þar sem slíkar ákvarðanir eru teknar. Það er margt skrýtið við þetta. Ég held að við þurfum virkilega að endurskoða öll greiðsluþátttökukerfi og ferðakostnaðarþátttöku og líka hvernig þjónustan er veitt.

Nú er það bara staðreynd að fólk sem býr úti á landi nýtir sér mun síður þjónustu sérfræðilækna eða aðra sérhæfða heilbrigðisþjónustu. Þetta kemur líka inn á það sem hefur verið í umræðunni undanfarið varðandi talmeinafræðingana, að þeir þurfi tveggja ára reynslu til að komast inn á samning en þetta eru einmitt talmeinafræðingarnir sem eru úti á landi. Ég hef heyrt að sjúkraþjálfararnir séu í svipaðri stöðu og það er einmitt úti á landi sem þarf að fara að endurnýja samninga. Við þurfum að láta þessi kerfi tala saman og vinna hvert með öðru. Það er mikilvægt að við drögum úr þessari sóun og þröngvum fólki ekki að óþörfu til heimilislæknisins að sækja vottorð eða annað. Við þurfum að skoða hvernig við getum aukið þjónustu úti á landi þannig að ekki séu fjölmargir sem þurfi að fara suður og annað slíkt. Þetta þurfum við alltaf að láta tala í takt.