151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[20:29]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er réttilega þingmannamál og ég held að hv. þingmaður átti sig á því, ef hann hefur fylgst með og ég veit að hann hefur fylgst með umræðum í dag, að uppleggið var auðvitað að ná sem mestri sátt. Ef ekki þá yrðu mál lögð fram í breiðri samstöðu. Frá því var síðan horfið með því að sameina málin þegar ljóst var að hugsanlega væru fleiri flutningsmenn en formaður VG á nokkrum málum. Við sjáum það líka og erum að kreista það út, sem segir náttúrlega svolítið mikið um allt málið, og munum örugglega fá það fram núna — ég veit að formaður Framsóknarflokksins styður málið eins og það er núna — og erum þá búin að fá það út hér í dag að það eru stjórnarflokkarnir sem styðja auðlindaákvæðið. Kemur það á óvart? Kemur þessi aðferðafræði á óvart? Nei, bara ekki. Það kemur bara alls ekkert á óvart að verið sé að koma með auðlindaákvæði með þessum hætti sem tengir stjórnarflokkana. Það sem kemur hins vegar á óvart er að tveir af þremur stjórnarflokkum hafa í rauninni kúvent í afstöðu sinni varðandi tímabindingu og treysta sér ekki til að segja það skýrt í þessu ákvæði. Þá eru það þessar aðdróttanir, með fullri virðingu af því að ég ber mikla virðingu fyrir hv. þm. Birgi Ármannssyni en ég heyrði líka hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að þetta sé leið fyrir Viðreisn til að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu. Alls ekki. Þetta er leiðin til að treysta rétt þjóðarinnar. Við höfum verið eindregnir talsmenn þess að vera með kvótakerfi. Við viljum aðra leið og treystum markaðnum til að ákveða gjaldið. Það er löggjafans að ákveða hvaða leiðir eru notaðar til að innheimta gjöld. Það er bara pólitíkin. En við erum að undirstrika ákveðinn rétt þjóðarinnar varðandi auðlindirnar og við erum að segja: Við afhendum engar auðlindir í eigu þjóðarinnar (Forseti hringir.) án þess að gerðir séu tímabundnir samningar. Engar auðlindir þjóðarinnar fara til varanlegrar afhendingar til annarra eða (Forseti hringir.) einhvers óviss tíma þó að hægt sé að kalla það inn eftir einhver X ár.