151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[20:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ágætt að hv. þingmaður hafi komið inn á þetta því að ég væri kannski að einhverju leyti rólegri með ákvæðið, sérstaklega varðandi gjaldið, ef stjórnarflokkarnir hefðu ekki margítrekað fellt tillögur okkar í Viðreisn, og frá Pírötum og Samfylkingunni, um að tímabinda samninga. Það hefur verið fellt. Það er enginn vilji hjá stjórnarflokkunum til að setja það ákvæði með lögum. Á meðan það er ekki gert og á meðan verið er að leggja fram tillögu með þessum hætti og engum lögum er breytt samhliða þá veikir það rétt þjóðarinnar. Það virkjar ekki rétt þjóðarinnar til eignarinnar yfir auðlindinni. Það er ekki verið að fara alla leið. Þess vegna spyr ég aftur: Hvern er verið að blekkja? Af hverju þessi leikjafræði? Mér finnst þetta ósmekklegt. (Forseti hringir.) Fólk á að tala hreint út. Við eigum að segja skýrt: Við afhendum ekki auðlindir þjóðarinnar nema með samningum og þeir verða að vera tímabundnir.