151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[21:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. samgönguráðherra og formanni Framsóknarflokksins. Það sem er mikilvægast í þessu öllu núna er auðlindaákvæðið. Við getum komið okkur saman um margt og við hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson erum búin að vera nokkuð sammála um margt í þessari stjórnarskrárvinnu eins og forsætisráðherra. Hins vegar er ég í prinsippinu ósammála þeirri nálgun sem kemur fram í frumvarpinu. Ég er ekki að leggja til grundvallarbreytingar á málinu. Ég er hins vegar að leggja til breytingar á þremur orðum, en það eru lykilorðin fyrir íslensku þjóðina. Ég legg til að tekið verði út orðið „varanlegt“ og sett inn „ótímabundið“ í staðinn, að það verði ekki heimilt að afhenda auðlindir til ótímabundinna nota. Ég undirstrika að það veitti mér ákveðna von að heyra bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. samgönguráðherra, formenn þessara stjórnarflokka, segja: Við erum að tala um tímabundna samninga. Fínt. Gerum það þá bara óyggjandi í sjálfu ákvæðinu, en ekki í þessu fumi og fáti sem er hér.

Aftur á móti talaði formaður Sjálfstæðisflokksins mjög skýrt. Hann vill enga tímabundna samninga. Þá spyr maður sig: Bíddu, formenn Framsóknar og VG segja að þetta séu í rauninni tímabundnir samningar. Svo kemur formaður Sjálfstæðisflokksins og segir: Nei, þetta er ekki þannig. Hver ræður hér? Á ég að trúa því að enn eitt skiptið séu stjórnarflokkar búnir að binda trúss sitt við Sjálfstæðisflokkinn? Formaður Framsóknarflokksins lagði sjálfur fram frumvarp á sínum tíma um tímabindingu samninga. Hann gerði það. Og því spyr ég: Eigum við ekki að veita þinginu tækifæri, tól og svigrúm til að gera nákvæmlega það til að ná sátt um þetta gríðarlega mikilvæga mál, um að auðlindirnar séu raunverulega í eigu þjóðarinnar og þjóðareignin sé virk en ekki óvirk eins og frumvarp forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna segir til um.