151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[21:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá skulum við hafa það skýrt. Og vel að merkja, ég væri reiðubúin til að trúa þessu ef það væri ekki þannig að stjórnarflokkarnir hafa ítrekað á þessu kjörtímabili fellt tillögu um að tímabinda samninga. Við vorum ekki að gera ágreining um það hvernig ætti að innheimta veiðigjöld. Við vorum ekki að draga inn í það uppboðsleið, markaðsleið eða leið ríkisstjórnarinnar, en við lögðum fram sáttatillögu um það. Fínt, við ætlum ekki að gera ágreining um auðlindagjaldið að þessu sinni en við ætlum að fá tímabundna samninga af því að í sjávarútvegi eiga að vera tímabundnir samningar um einkaafnot af auðlindinni eins og í annarri nýtingu á öðrum auðlindum íslensku þjóðarinnar. Eðlilega er það þannig, og lái mér hver sem vill, að maður spyrji sig hvort maður eigi ekki að hafa allan varann á þegar Sjálfstæðisflokkurinn, Framsókn, Vinstri græn og Miðflokkurinn eru komnir á einn og sama bátinn þegar kemur að auðlindaákvæðinu. Þess vegna höfum við lagt fram tillögur til að treysta og tryggja virka þjóðareign, ekki óvirka eins og ríkisstjórnarflokkarnir vilja.