151. löggjafarþing — 52. fundur,  3. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[21:55]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get verið sammála hv. þingmanni um að lagatextar eigi að vera skýrir. Ég hef sagt stundum í hálfgerðu gríni að lögfræðingar eigi ekki að koma nálægt ritun lagatexta, ég veit ekki hvort hv. þingmaður er sammála mér í því. En hvernig stjórnarskrár eiga að vera, það er stór spurning. Ég hef stundum talað um að þær ættu að vera frekar einfaldar og með fáum grundvallargreinum og svo setjum við lög um annað, en skiptar skoðanir eru um það.

Ég verð að segja að ég er ósammála hv. þingmanni varðandi skilgreiningu á auðlindum. Eins og ég hafði gaman af að hlusta á margt í ræðu hv. þingmanns varð ég fyrir örlitlum vonbrigðum með hvað mér finnst hv. þingmaður horfa þröngt á auðlindir. Ég var svo viss um að við gætum náð saman í baráttunni fyrir því að þjóðin fengi réttlátan arð og það væri tryggt að í þjóðareign væru allar þær auðlindir sem okkar góða land býr yfir, ekki bara sjávarútvegur. Staðreyndin er sú að sjávarútvegurinn er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og ég tala nú ekki um í sögulegu samhengi. En auðlindanýting er svo miklu meira. Eigum við að tala um álútflutninginn, álið sem er búið til vegna krafts úr náttúru Íslands, eða landið sem fólk kemur og skoðar og útflutningstekjurnar sem það skilar? Og svo held ég að auðlindir verði alltaf fleiri og fleiri. Ég held einmitt að víðernin, náttúran og ég hugsa að þjóðgarður verði auðlind í framtíðinni, fólk sæki í akkúrat það sem við höfum upp á að bjóða, sem við eigum öll saman.

Ég held, forseti, að ég og hv. þingmaður getum einmitt tekið höndum saman um að tryggja það að allar þessar auðlindir verði í stjórnarskrá ævarandi í eigu þjóðarinnar.