151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

meðhöndlun sorps.

[13:08]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég ætla að beina spurningum til hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um meðhöndlun sorps hér á landi. Eins og hæstv. ráðherra er kunnugt um urðum við mestallt okkar sorp í dag. Þannig urðum við árlega um og yfir 200.000 tonn af sorpi og undanskil ég þar allan óvirkan úrgang. Þá höfum við einnig á undanförnum árum flutt út töluvert magn af úrgangi og kom fram í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn frá mér fyrr í vetur að þar er um að ræða u.þ.b. 120.000 tonn árlega, að mestu til endurnýtingar og -vinnslu. Nýlegar fréttir um að eitthvað af sorpi Vesturlanda endi á risastórum sorphaugum í löndum þriðja heimsins valda okkur auðvitað áhyggjum af afdrifum alls þess sorps sem verið er að flytja á milli landa.

Í ljósi þess að nú lítur út fyrir að urðun verði hætt í Álfsnesi innan tveggja ára vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort hann geti ekki verið sammála mér um að við getum ekki lengur haldið áfram á þessari braut, þ.e. að urða og flytja út úrgang okkar. Ef hann er sammála mér, hvaða lausnir sér hæstv. ráðherra fyrir sér í þeim efnum? Verðum við ekki að leysa sorpmál okkar sem næst upprunastað sorpsins, þ.e. hér á landi? Nú hefur tækni við brennslu sorps fleygt fram á umliðnum árum og vestrænar þjóðir hafa byggt mjög umhverfisvænar sorpbrennslur í því skyni að losna við úrgang og framleiða um leið varma og raforku sem þær svo nýta. Ég hef í þrígang flutt tillögu um að stjórnvöld kanni af alvöru að reisa slíka stöð hér á landi og leysa þannig sorpvanda okkar. Sér hæstv. ráðherra fyrir sér að hann beiti sér fyrir því að slík stöð rísi hér á landi?