151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

umræður um utanríkismál.

[14:37]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Þetta er í fyrsta skipti sem ég tek þátt í umræðum um fundarstjórn forseta þannig að mér datt í hug að nýta tækifærið. Eins og allir vita er ég friðarins maður í öllu sem ég tek mér fyrir hendur en ég vildi þakka kærlega fyrir það sem hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir kom inn á. Það að tilheyra stórum þingflokki á þingi takmarkar mjög málfrelsi í mörgum málum. Ég held að margir hér séu búnir að átta sig á því fyrir margt löngu. Þetta er eitthvað sem þarf að taka fyrir. Sérstakar umræður og annað — tvær mínútur og tvær mínútur. Við komumst aldrei að þar. Það er því bara mjög mikilvægt fyrir hv. þingmenn sem vilja taka þátt í umræðum að þeir fái tækifæri til þess. Það er nú bara þannig að ef maður tilheyrir stórum þingflokki þá er maður töluvert heftur af þeim þingsköpum sem gilda um sérstakar umræður og ræðutíma í einstökum málum í þinginu. Ég er búinn, ein sekúnda eftir.