151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

utanríkisviðskiptastefna Íslands, munnleg skýrsla utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - Ein umræða.

[14:52]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Það er full ástæða til að hrósa hæstv. utanríkisráðherra og ráðuneytinu fyrir fínt yfirlit og ágæta skýrslu og nauðsynlegt gagn. Að vísu fannst mér, þegar ég las nafnið á henni, að ég væri að fá skátablaðið sent í pósthólfið mitt. [Hlátur í þingsal.] En við sem erum að skríða yfir fimmtugt munum ágætlega eftir því þegar viðskipti við útlönd voru talsvert minni, þegar innflutningstakmarkanir gerðu það að verkum að við höfðum úr færri vörum að velja. Það var erfiðara að kaupa í matinn, sælgæti, húsgögn og annað slíkt. Við vorum að verja innlenda framleiðslu. Við opnari viðskiptastefnu sýndu innlendir framleiðendur yfir höfuð hvers þeir eru megnugir og með hugkvæmni, sóknardug og nýsköpun efldust þeir við aukna samkeppni. Í dag búum við sem betur fer við miklu fjölbreyttara vöruúrval frá öllum heimshornum og flytjum sömuleiðis íslenskan varning út til flestra heimshorna. Við þurfum aðeins að gæta að okkur og kaupa meira það sem er framleitt næst okkur en að því slepptu eru opin viðskipti af þessu tagi okkur til góðs og það hefur sagan sýnt okkur. Ég er því sammála megininntaki skýrslunnar um að meiri samvinna og opnari og frjálsari alþjóðaviðskipti séu góð.

Það hlýtur þó að skjóta örlítið skökku við þegar hér er verið að ræða um stefnuskjal þar sem fjallað er um aukna fríverslun, og hvernig ryðja eigi úr vegi ýmsum viðskiptahindrunum, að færð séu rök fyrir auknum hömlum og tollum á landbúnaðarvörur. Og þó að mikilvægt sé að styðja ríkulega við bændur og matvælaframleiðendur, og gríðarmörg tækifæri séu falin í íslenskri framleiðslu, eru höft á markaðsaðgengi, sérstaklega tollar, afar dýrt stuðningsvopn, ekki bara fyrir ríkiskassann heldur líka fyrir neytendur, og nógu hátt er nú matvælaverð á Íslandi samt. Auk þess er einhver skrýtinn tvískinnungur í því að á sömu opnu og færð eru rök fyrir auknum tollum á landbúnaðarvörur, sem séu nauðsynlegir, sé talað um mikilvægi endurskoðunar á þeim tollum sem eru til staðar fyrir útflutning íslenskra sjávarafurða til ríkja ESB, þó að það sé reyndar mjög mikilvægt mál.

Við ræddum talsvert áðan um samskipti Íslands og Bandaríkjanna og loftslagsmál. Þá held ég að við þurfum aðeins að ræða loftslagsmál og hvernig samþætta þarf íslenska atvinnuuppbyggingu við loftslagsaðgerðir. Sókn okkar í aukinn útflutning til að standa undir nauðsynlegri aukinni verðmætasköpun þarf líka að haldast í hendur við að við byggjum upp atvinnuvegi sem eru virkilega grænir. Eftirspurn eftir slíku verður miklu meiri á næstu árum þannig að þessa umræðu hér þarf að samþætta við umræðu um hvernig við ætlum að byggja upp atvinnulíf okkar.

Samfylkingin hefur fyrir sitt leyti lagt fram stefnu um græna atvinnubyltingu. Ég er alveg viss um að í flestum ef ekki öllum flokkum eru sjónarmið sem geta róið í sömu átt. Við skulum endilega sameinast um það og láta haldast í hendur aukna verðmætasköpun, meiri samskipti við útlönd og umfram allt kraftmeiri og metnaðarfyllri loftslagsaðgerðir.