151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

sóttvarnalög.

329. mál
[16:00]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég get ekki látið hjá líða að fá að halda ekki of langa ræðu hér um þetta mál vegna þess að það er ekki hefðbundið mál í þeim skilningi að hér sé um hefðbundna lagabreytingu að ræða. Hér er verið að bregðast við kórónuveirufaraldrinum og því neyðarástandi eins og menn mátu það í febrúar eða mars á síðasta ári. Það er einnig verið að bregðast við ábendingum um skort á lagaheimild til verulegra skerðinga á stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga og um leið er verið að viðurkenna að mikil þörf er á heildarendurskoðun á þessum lögum. Í því ljósi tel ég sýnt að hér er ekki um hefðbundið lagafrumvarp að ræða.

Núna eru að koma í ljós, og menn fjalla svolítið um, neikvæðar afleiðingar kórónuveirufaraldursins. Mér hefur hins vegar fundist brenna við að þá sé þar jafnan verið að vísa til faraldursins sem slíks, veirunnar sjálfrar, en ekki til aðgerða sem gripið hefur verið til til að bregðast við faraldrinum. Ég geld varhuga við því að menn líti svo þröngt á neikvæðar afleiðingar kórónuveirufaraldursins vegna þess að sóttvarnaaðgerðir, bæði hér á landi og víða um heim, hafa ótvírætt haft neikvæðar afleiðingar í för með sér. Nýlega kom út greining hjá sjálfstæðri bandarískri rannsóknastofnun, National bureau of economic research, aldagömul þar í landi, þar sem fram kemur að á næstu 15 árum, hún metur það sem svo, verði um 1 milljón ótímabærra dauðsfalla vegna sóttvarnaaðgerða þar í landi, og er þá bara verið að vísa til afleiðinga af völdum atvinnuleysis þar í landi. 1 milljón manna.

Enginn vafi er í mínum huga að ýmsar sóttvarnaaðgerðir hafi haft og muni hafa í framtíðinni víðtækar heilsufarslegar afleiðingar. Þá má heldur ekki líta fram hjá því að efnahagslegar afleiðingar hafa að sjálfsögðu áhrif á lýðheilsu. Það er engin tilviljun að í þeim löndum sem glíma við bágan efnahag er lýðheilsa gjarnan í hættu.

Þetta mál var kallað inn til hv. velferðarnefndar á milli 2. og 3. umr. vegna óskar eins hv. þingmanns sem vildi fá umfjöllun um lagabreytingar á Norðurlöndunum, en það eru þau lönd sem helst eiga samleið með okkur í lagasetningu. Nefndin fjallaði um frumvarpið, fékk upplýsingar um þær lagabreytingar sem væru í gangi, m.a. í Danmörku, og hélt einn fund um málið. Mig langar í því sambandi að nefna að nýlega, fyrir nokkrum dögum, kom út í fyrsta sinn í sögu danska þingsins rannsóknarskýrsla sem telur 600 blaðsíður, í fyrsta sinn sem danska þingið hefur kallað eftir rannsóknarskýrslna um eitt tiltekið mál, þ.e. þetta mál. Skýrslan er allrar athygli verð, ekki það að ég sé sérstakur talsmaður rannsóknarskýrslu og sé að kalla eftir slíkri hér af hálfu Alþingis, en ég held einmitt þvert á móti eða þess þá heldur megi ýmislegt kannski læra af niðurstöðum í þeirri rannsóknarskýrslu sem kom út fyrir nokkrum dögum hjá danska þinginu. Þar kemur fram að það hafi verið augljós mistök í Danmörku að hafa ekki endurskoðað sóttvarnalögin áður en þessi kórónuveirufaraldur gekk yfir. Sóttvarnalög Danmerkur eru, eins og þau lög sem gilda á Íslandi, komin til ára sinna. Í því ljósi er komist að þeirri niðurstöðu að lítill tími hafi verið til að gera þær breytingar þegar faraldurinn var hafinn og þannig hafi mikill hraði verið á lagabreytingum. Lagabreytingar í Danmörku fóru fram í mars og apríl á síðasta ári, og að mér virðist þær sömu lagabreytingar og hér er verið að gera. Í dönsku rannsóknarskýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að þær lagabreytingar hafi verið gerðar með þeim hraði að það hafi verið á kostnað gæða lagasetningarinnar og hins lýðræðislega ferlis, þ.e. réttarríkisins.

Að lokum langar mig að nefna þær ábendingar sem lagðar eru til í þeirri skýrslu. Ég held að það sé ágætt að þingheimur hafi í huga, að ég tali nú ekki um með fyrirhugaða endurskoðun heildarlaganna, að ein af þeim ábendingum var einmitt sú að þegar svona faraldur eða faraldrar ríða yfir eða menn eða lönd lenda í þeim aðstæðum sem við höfum verið í, sé sett strax á laggirnar sérstök nefnd sem skipuð væri sérfræðingum, ekki bara á sviði sóttvarna eða veirufræða, heldur einnig á sviði hagfræði og lögfræði, og að slík nefnd starfi fyrir opnum tjöldum þannig að allar hennar vangaveltur, ráðleggingar og annað séu gerðar opinberar. Þá er líka bent á það, a.m.k. kemur það fram í niðurstöðum skýrsluhöfunda, að það sé enginn vafi í þeirra huga að aðstæður sem þessar kalli á pólitíska forystu, kalli á pólitíska umræðu og aðkomu löggjafans í ríkum mæli.

Að lokum vil ég nefna eina ábendinguna enn. Það kemur fram að núna, bara í þessum töluðu orðum, er verið að samþykkja ný heildarlög, sóttvarnalög í Danmörku, sem urðu til með málamiðlun allra flokka þar, þar sem gert er ráð fyrir að sett verði á laggirnar sérstök þingnefnd við þessar aðstæður sem stjórnvöld þurfi að bera undir mál áður en gripið er til aðgerða.

Meginþráðurinn í þessu öllu saman og ábendingum í rannsóknarskýrslu danska þingsins er hins vegar sá að bæði lagaákvæði og stjórnvaldsákvarðanir séu bundnar með sólarlagsákvæði. Þetta held ég, virðulegur forseti, að menn ættu aðeins að kynna sér, ekki það að menn eigi að gleypa allt hrátt sem kemur fram í skýrslum frá erlendum þingum. Aðstæður geta auðvitað margar verið öðruvísi, en margt í þessu hefur mér fundist í megindráttum eiga mjög vel við hér og ég hvet þingmenn alla til að láta sig það varða núna í framhaldinu við heildarendurskoðun laganna.