151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

samgöngubætur á Austurlandi.

[13:16]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Hvað varðar sjálfdæmi sveitarfélaga þá erum við á Íslandi raunar með dálítið annað fyrirkomulag á þessu en annars staðar á Norðurlöndum þar sem sveitarfélögin eru ekki með sjálfstæða tekjustofna eins og hér á landi. Við höfum alltaf lagt mikið upp úr sjálfstæði sveitarfélaga, að þau hafi sem mest að segja um sín örlög. En um leið vil ég segja að fyrir framtíðina þá er það mín skoðun að við eigum eftir að sjá stærri og færri sveitarfélög sem munu um leið hafa betri tök á því að móta stefnu fyrir sín svæði. Ég er mjög bjartsýn á að þær sameiningar sveitarfélaga sem við höfum séð á Austurlandi muni gefast vel. Ég veit, eins og ég nefndi hér áðan, að það er þegar farin af stað umræða um það hvort þessi landshluti eigi eftir að enda sem eitt sveitarfélag. Af því að hv. þingmaður ítrekar fyrirspurn um samgöngur eru þetta þær tvær framkvæmdir sem hafa verið settar í forgang vegna einmitt hins nýja Múlaþings. En auðvitað eigum við að horfa (Forseti hringir.) til lengri tíma til tenginga á milli.

Svo vil ég segja að þó að ég sé þingmaður Reykjavíkur norður þá hef ég alltaf litið á mig sem þingmann landsins alls.