151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[14:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski rétt að fara aðeins yfir það að þröskuldurinn í vegi þess að þingmál geti lifað milli þinga byggir á túlkun á 44. gr. gildandi stjórnarskrár. Menn hafa ekki treyst sér til að túlka það orðalag öðruvísi en þannig að það gildi um hvert löggjafarþing, þar sem segir, með leyfi forseta: Ekkert lagafrumvarp má samþykkja fyrr en það hefur verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Lögspekingar flestir hafa verið sammála um að þetta bæri að túlka sem hvert löggjafarþing og ekki vilja menn vera í vafa um stjórnarskrána ef þeir færu út í það að opna fyrir slíkan möguleika í þingsköpum. Ég er ekkert viss um að á bak við það hafi staðið einbeittur vilji á sínum tíma heldur hafi þetta hugsanlega bara lent inn svona til að tryggja þrjár umræður en ekki endilega að málið þyrfti alltaf að endurflytjast á hverju þingi.

Svo er spurningin um það hvernig eigi að afmarka þetta og hvers konar mál þetta geti verið. Þarna er talað um frumvörp en menn gætu fært fyrir því rök að þetta gæti átt við um fleiri þingmál — og ég hef sjálfur velt því dálítið fyrir mér — t.d. um viðamiklar þingsályktunartillögur, framkvæmdaáætlanir og annað slíkt. En við erum vonandi sammála um að þetta ætti ekki að taka til minni mála, léttvægari mála. Ég efast um að það væri hyggilegt að galopna fyrir þetta. En hv. þingmaður nefnir líka hlut eins og fyrirspurnir til skriflegs svars eða beiðnir um skýrslur og það er ágætisábending. Af hverju skyldi skýrsla sem beðið hefur verið um á einu löggjafarþingi ekki mega berast á hinu næsta og vera þingmál eftir sem áður í stað þess, eins og við vitum, að hún verður í raun að munnlegri skýrslu ef beiðnin um hana hefur ekki verið endurnýjuð?

En aðalatriðið er í mínum huga að gefa gaum að þessu og ígrunda það vel og ég hef hug á því að senda umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um þessa þætti og (Forseti hringir.) vera þá búinn að leggja vinnu í að skoða hvernig þetta gæti verið afmarkað þannig að nefndin sjái ekki bara orðalag á þessu ákvæði heldur líka mögulega útfærslu þess í þingsköpum.