151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[15:32]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegi forseti. Nágrannalönd okkar nota orðið „grundlov“ um stjórnarskrár sínar, grunnlög, sem dregur vel fram eðli þessa plaggs, að vera grundvöllur allrar lagasetningar í landinu og þar með samskipta okkar borgaranna hvert við annað. Með öðrum orðum, þetta er samfélagssáttmáli. Þegar við gerum sáttmála höfum við það ekki þannig að ég komi til einhvers og segi: Nú ætlum við að gera sáttmála á milli okkar og við ætlum að hafa þetta svona og svona, skrifaðu undir hér, treystu mér bara. Ég ráðgaðist við fólk sem hefur mjög mikið vit á þessu og þetta er mjög vandað plagg, treystu því. — Nei, þetta er sáttmáli lýðveldisins Íslands eða, svo við notum jafnvel enn hátíðlegra orð, þetta eru boðorð okkar sem myndum saman þetta samfélag. Þetta eru æðstu lög landsins og grundvöllur íslenskrar stjórnskipunar. Þetta er plaggið sem tryggir okkur öllum tiltekin mannréttindi og skilgreinir skyldur okkar gagnvart samborgurum okkar og þeirra við okkur og skyldur ríkisvaldsins við okkur. Þetta varðar okkur öll og þess vegna þurfum við öll svo sem kostur er að koma að gerð þessa samfélagssáttmála og hafa vitund um það að hann sé gerður með vitund og vilja og atbeina okkar eins og kostur er. Að sjálfsögðu eru síðan fjölmörg flókin tæknileg úrlausnaratriði og álitamál við sjálfa útfærsluna sem þarf að ráða fram úr með hjálp og atbeina þeirra sem fást við það daglega að túlka lögin og framfylgja þeim. En það er grundvallaratriði að stjórnarskráin er ekki einkamál lögspekinga. Hún varðar okkur öll.

Boðorð. Já, það er stórt orð, Hákot. Stundum finnst manni að sumir telji að núgildandi stjórnarskrá sé eins og steintöflurnar sem Móse kom með niður af Sínaí-fjalli, óhagganlegt plagg, samið af guði og starfsmönnum hans. Það er einhver svona hugsun sem við sjáum t.d. á höggmyndinni af Kristjáni IX. við Stjórnarráðið. Hans hátign, konungur Danmerkur, Vinda og Gauta og hvað nú annað, réttir okkur úr upphæðum þetta plagg. Hérna, börnin mín, þetta er plagg frá mér til ykkar. Frelsisskrá úr föðurhendi, sagði séra Matthías um þetta, hann réttir þennan vöndul úr mildri föðurhendi þess sem er talinn starfa í sérstöku umboði frá guði almáttugum og með hans velþóknun og samkvæmt þeirri hugmyndafræði einveldisins sem var landlæg og rótgróin hér löngu eftir að einveldið hafði verið formlega afnumið. Það var danskt vald, hvað sem kann að líða samanburði við SS pylsur.

Þó gerðu ráðamenn 1944 sér grein fyrir því að plaggið væri til bráðabirgða og þyrfti endurskoðunar við. Það sést m.a. vel í ágætri grein sem núverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, skrifaði á sagnfræðingsárum sínum og heitir „Tjaldað til einnar nætur“, þar sem hann rekur vel aðdraganda stjórnarskrárgerðarinnar 1944. Í greininni kemur mjög vel fram að almennt litu ráðamenn svo á að þetta væri bráðabirgðaplagg sem þyrfti endurskoðunar við. Krafan var mjög sterk þá um þjóðareiningu og ákveðið var að breyta sem minnst frá þeirri dönsku stjórnarskrá sem hér hafði verið frá 1920 og svo frá 1874. Síðan hafa ótal nefndir tekist á við það verkefni og einstakir kaflar og greinar hafa verið endurskoðuð og munar þar mest um mannréttindakaflann sem er góður. En heildarendurskoðunin hefur sem sagt ekki tekist. Í þeirri sögu urðu kaflaskil í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hrundið var af stað ferli sem enn hjarir. Kosið var til stjórnlagaþings í ákaflega lýðræðislegum kosningum þar sem landið allt var eitt kjördæmi og hver maður hafði eitt atkvæði óháð búsetu. Fjöldi áhugasamra einstaklinga bauð fram krafta sína í það verkefni og vel tókst til að velja fulltrúa frá ólíkum sviðum samfélagsins sem unnu saman svo að til fyrirmyndar var, enda fundu allir til ábyrgðar sinnar við þá sáttmálsgerð. Stjórnlagaráð vann tillögur að stjórnarskipunarlögum árin 2011–2012 og skilaði síðan Alþingi heildstæðu frumvarpi sem var unnið áfram hjá hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Hún lagði síðan fram fullbúið nefndarfrumvarp vorið 2013 og svo var haldin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla þar sem afgerandi niðurstaða fékkst. Tveir þriðju hlutar kjósenda vildu leggja frumvarpið til grundvallar nýrri stjórnarskrá. Eftir það má segja að íslenskir ráðamenn hafi verið að klóra sér í hausnum við að reyna að ráða fram úr því hvernig þeir komist hjá því að fara að þeim þjóðarvilja sem þar kom fram.

Hugmyndin var upphaflega sú að stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð myndi starfa í þremur atrennum með hléum á milli. Þá hefði það komið saman á ný eftir vinnu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og að teknu tilliti til athugasemda Feneyjanefndarinnar og sérfræðinga hér á landi. Ef það hefði verið gert hefði þessu lýðræðislega ferli verið haldið lifandi, samtali almennings, leikmanna í stjórnarskrármálinu, kjörinna fulltrúa með lýðræðislegt umboð til starfsins og svo náttúrlega lög- og stjórnspekinganna, til að varðveita sáttmálseðli þessa plaggs.

Ég vil, herra forseti, gera að mínu og undirstrika það sem segir í bókun Samfylkingarinnar og Pírata sem fylgir frumvarpi hæstv. forsætisráðherra, með leyfi forseta:

„Í fyrsta lagi er ferðalagið að hluta til markmiðið. Stjórnarskrá sem verður til með opnum, lýðræðislegum hætti — hætti sem er sem minnst háður hefðbundnum flokkastjórnmálum og valdahagsmunum — og í ranni landsmanna sjálfra, með möguleikum á beinni þátttöku þeirra, er mun líklegri til að njóta trausts og virðingar og verða raunverulegur samfélagssáttmáli, heldur en sú sem verður til á lokuðum fundum formanna stjórnmálaflokka og í vinnu embættismanna í ráðuneytum.“

Mér finnst mikilvægt að halda þessu til haga og hafa í heiðri. Þetta verður stjórnarskráin okkar en ekki stjórnarskráin þeirra. Þetta verður stjórnarskrá fólksins, gerð í samræmi við tiltekin grunngildi sem voru ákveðin í aðdraganda stjórnlagaráðsins á borgarafundum. Þar voru leiðarljósin valddreifing, gegnsæi og ábyrgð. Þau leiðarljós höfðu svo áhrif á alla kaflana í frumvarpi ráðsins, allt frá 1. gr., um stjórnskipan lýðveldisins, og til ákvæða um völd forseta, til ákvæða um valddreifingu til sveitarfélaga og landshlutasamtaka, til ákvæða um þjóðarfrumkvæði og þannig má áfram telja. Sem sé: Við teljum okkur vera samfélag sem aðhyllist ákveðin grunngildi og við ætlum að gera með okkur sáttmála þar sem þau grunngildi eru höfð að leiðarljósi.

Núgildandi stjórnarskrá er hins vegar langt frá því að vera stjórnarskrá fólksins. Hún kemur úr dönsku konungsveldi, hún er að uppistöðu frá 1874 og svo 1920. Svo hefur verið brugðist við og gerðar allra nauðsynlegustu endurbætur þegar ekki hefur verið lengur hjá því komist. Slík stjórnarskrá er ekki heildstæð og hefur ekki þá heildarhugsun sem stjórnarskrá sem samin er í lýðræðislegu ferli frá grunni hefur. Hér gæti meira að segja átt við hin ofnotaða samlíking við hinn vanmetna bútasaum. Bútasaumur er nefnilega mjög snjöll og góð aðferð við að nýta afganga af efni og hefur verið ranglega notaður í margþvælda líkingu en sú líking kann að eiga við hér.

Það hefði verið mikilsvert að halda lífinu í þessu merkilega ferli sem hefur vakið athygli víða um heim og leiða stjórnarskrármálið til lykta með því að kveðja saman á ný stjórnlagaráðið til að halda áfram vinnu sinni, halda áfram samstarfi og samráði almennings og sérfræðinga við að fullmóta nýja heildstæða stjórnarskrá okkar Íslendinga, því að ferðalagið er að hluta til markmiðið. Þetta mál er að verða eins og ferðin sem aldrei var farin, sem var smásaga eftir Sigurð Nordal sem maður var látinn lesa í skóla, eða kannski öllu heldur ferðin sem var lagt af stað í en var svo stöðvuð.