151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson séum nokkurn veginn á sömu línu í þessu máli, mér heyrist það. Ég er alveg sammála því að ef við förum þessa leið, eins og t.d. var í þessari svokölluðu nýju stjórnarskrá, og að hluta til í þessu frumvarpi forsætisráðherra, þá er í mínum huga verið að eyðileggja það sem ég kalla stjórnarskrá. Þá verður framtíðin þannig að við reynum að breyta henni eftir því hvernig valdahlutföllin eru á hverjum tíma og koma inn okkar málum. Það hef ég alltaf viljað forðast. Ég hef alltaf litið svo á að við værum sammála í grundvallaratriðum um þá stjórnskipan sem við höfum og sammála um það hvaða réttindi við eigum að hafa gagnvart stjórnvöldum, þ.e. mannréttindakaflann. Ef við þurfum að laga eitthvað þá fylgir slíkt einhverri þróun varðandi mannréttindi en ekki fara að hrófla við stjórnskipaninni nema við séum sammála um það og þá er bara almenn sátt um það. En svo var auðvitað ekki í þessu ferli. Menn ætluðu bara að þvinga þetta í gegn á einföldum meiri hluta. Það var hugsunin, pólitísk stefna að stórum hluta. Menn voru að veifa þessu plaggi og segja að það væri svo lýðræðislegt og frábært, að vísu voru allir sérfræðingar búnir að segja að það væri ónothæft sem stjórnarskrá. Þeir sem voru hvað mest fylgjandi því að stjórnlagaráðsplaggið yrði stjórnarskrá segja venjulega hérna í umræðunni að við eigum alltaf að hlusta á sérfræðinga. Svo þegar sérfræðingar segja að það sé ónýtt þá þarf allt í einu ekki að hlusta á sérfræðingana lengur. Auðvitað er þetta plagg ónýtt. Það vita allir sem einhverja þekkingu hafa á stjórnlögum yfir höfuð.