151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:10]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Stjórnarskráin, sem er jú grundvallarlöggjöf okkar, verðskuldar að vera stöðug og verðskuldar um leið að fá að þróast í samræmi við breyttan tíðaranda. Getur það tvennt farið saman? Já, það getur það. Við eigum að nálgast stjórnarskrána okkar af djúpri virðingu og það þarf vitaskuld meira til að koma til að hrófla við henni en gildir um aðra löggjöf. Með því að við nálgumst hana sem grundvallarlöggjöf okkar blasir við að hún er vegvísir sem öll önnur löggjöf þarf að ríma við og standast. Þess vegna þarf hún að vera í samræmi við grunngildi þjóðarinnar og þess vegna þarf hún að vera skýr. Vegvísirinn verður líka að endurspegla samfélagið, gildi og sýn þjóðarinnar, og það tel ég að hún hafi að mestu leyti gert og í þeim tilvikum þar sem upp á hefur vantað hefur hún verið endurskoðuð. Stærsta breytingin og marktækasta að því leyti er vitaskuld endurskoðun mannréttindakaflans á sínum tíma. Sjálf er ég þeirrar skoðunar að stjórnarskráin verðskuldi þá virðingu að fá að standa þar sem hún getur staðið, að við lagfærum hana og gerum hana sterkari, að við gerum hana endingarbetri og jafnvel fallegri þar sem þess er þörf. Í mínum huga er það inntak hennar sem skiptir máli en ekki það hvort hún er að grunninum til ný eða gömul.

Stjórnarskráin okkar er og hefur verið gagnorð, sem er kostur, en það má hins vegar ekki vera á kostnað þess að hún sé skýr, því hún varðar jú sum af mikilvægustu viðfangsefnum samtímans. Breytingartillögur hæstv. forsætisráðherra verða líka að standast þær kröfur, að vera gagnorðar og skýrar, bæði um markmið, inntak og þýðingu. Orðalag sjálfra ákvæðanna þarf að vera skýrt. Það dugar ekki til að að baki þeim sé góður pólitískur vilji, pólitískar yfirlýsingar hér inni í þingsal eða fyrir utan hann, heldur þarf orðalag stjórnarskrárinnar sjálfrar að standast þessa kröfu.

Nokkur atriði í frumvarpinu sem hér eru til umræðu eru eðlilega umdeildari en önnur og ég ætla í þessari ræðu að halda mig við eitt atriði, grundvallaratriði, þar sem ég tel að ástæða sé til að óttast að göfugt markmið hafi því miður ekki verið mikið meira en það. Það er tillagan sem varðar ákvæðið um auðlindir landsins. Það ákvæði nær því að mínu viti ekki að vera nægilega skýrt um það til hvers sé lagt af stað með breytingar og gæti í versta falli fest í sessi fyrirkomulag, kerfi, sem er í andstöðu við sýn og vilja þjóðarinnar og ég spyr hvort það hafi verið markmiðið. Auðlindir landsins skulu samkvæmt b-lið 22. gr. frumvarpsins, sem yrði 80. gr stjórnarskrárinnar, tilheyra íslensku þjóðinni. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þær skal nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta landsmönnum öllum. Ríkið hefur eftirlit og umsjón með meðferð og nýtingu auðlindanna.“

Allt er þetta gott og blessað. Svo segir, með leyfi forseta:

„Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota. Handhafar löggjafarvalds og framkvæmdarvalds fara með forræði yfir þeim í umboði þjóðarinnar.

Veiting heimilda til nýtingar á náttúruauðlindum og landsréttindum sem eru í þjóðareign eða eigu íslenska ríkisins skal grundvallast á lögum og gæta skal jafnræðis og gagnsæis. Með lögum skal kveða á um gjaldtöku fyrir heimildir til nýtingar í ábataskyni.“

Síðasta efnisgrein þessa ákvæðis er sú sem öllu máli skiptir, bæði í pólitísku og lagalegu samhengi. Þar eru vonbrigðin falin. Veiting heimilda þar er ekki skýrlega tímabundin heldur segir í ákvæðinu að veiting heimilda skuli grundvallast á lögum. Það er gott svo langt sem það nær en þetta vantar þó inn í ákvæðið. Gjaldtaka er bundin í lög sem eðlilegt er en ekki sagt neitt nánar um það. Lykilspurningunum, pólitískum og lagalegum, er að mínu viti ekki skýrlega svarað þarna en það að skila auðu í lagasetningu er auðvitað ákveðin afstaða í sjálfu sér. Ef markmiðið var að tryggja rétt almennings umfram það sem fiskveiðilöggjöfin okkar gerir þegar verður það sennilega ekki niðurstaðan. Þjóðareignin á skilið að fá skýrari vernd í stjórnarskrá en hér er boðað. Til þess að ná fram skýrlega efnislegri breytingu en ekki ákvæði sem er gott svo langt sem það nær en gatar það sem máli skiptir þá hefði átt að festa í lög orð eins og tímabindingu, að stjórnarskrá þjóðarinnar segi það skýrt hvað sé heimilt og hvað ekki og hversu lengi. Orðin hafa þýðingu og þögnin hefur það líka. Ég velti því fyrir mér hvers vegna ekki má segja þetta skýrlega í ákvæðinu sjálfu. Greinargerðin virðist mjög á þessum nótum en það er eins og það vanti að stíga lokaskrefið. Þetta er afraksturinn eftir áralanga vinnu og yfirferð þar sem allir vita um hvað málið snýst. Hvers vegna er sú leið farin að setja ákvæði sem horfir við mér sem fremur opið ákvæði, sem a.m.k. er vafa undirorpið um að skili í reynd mikilli breytingu á réttarstöðu? Ef markmiðið er sátt þjóðar á þá að vera skýrt að þegar lagt er upp með breytingu á stjórnarskrá séum við þá með það skýrt í hendi hvaða efnislegu þýðingu það hefur að segja að auðlind sé sameign þjóðar, því að ég held að þetta ákvæði geti a.m.k. ekki skýrlega náð fram því markmiði eða þeim fyrirheitum sem þjóðin vill heyra. Þau eru ekki skýrlega orðuð í þessu ákvæði.

Ef ætlunin er sú að réttarstaðan verði að mestu leyti óbreytt þá finnst mér að það eigi líka að liggja skýrt fyrir, að umræða um stjórnarskrá sé þá með þeim hætti og þjóðin fái að heyra að sú sé ætlunin. Ef ætlunin er hins vegar að ná fram breytingu biðla ég til ríkisstjórnarinnar að gera það þá þannig að öllum sé það ljóst en skilja ákvæðið ekki eftir opið með þeim hætti að það verði einhver framtíðarmúsík hvernig ákvæðið mun þróast, því það vitum við að stjórnarskrárbreytingar standa ekki í eitt og tvö ár ef af þeim verður. Þetta yrði þá breyting, ef hún yrði samþykkt á næsta þingi, sem er líkleg til að lifa næstu áratugina.

Fram kemur í greinargerð að hæstv. forsætisráðherra hafi haldið 25 fundi með formönnum stjórnmálaflokkanna eða fulltrúum þeirra. Ef maður fer alla leið til baka má segja að vinna við þetta mál hafi staðið frá árinu 1998 og hér stöndum við uppi og afraksturinn er þessi. Ég vil því benda á breytingartillögu sem formaður Viðreisnar lagði fram þar sem ákvæðið er lítillega breytt en það vitum við líka að einstök orð í lagasetningu geta haft grundvallaráhrif á inntak. Í breytingartillögunni er lítið atriði, sem er stórt, að setja inn orðið „ótímabundinna“, og einnig sú pólitíska og lagalega yfirlýsing í því sambandi að tala um eðlilegt endurgjald.

Herra forseti. Ákvæði frumvarpsins um auðlindir á sér langa forsögu eins og ég kom inn á áðan. Lögð hafa verið fram allnokkur frumvörp til stjórnarskipunarlaga á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskrá og í því ljósi verð ég að viðurkenna að þessi niðurstaða er mér nokkur vonbrigði. Rík þörf er á að fjalla um auðlindir í stjórnarskrá og mæla þar fyrir um þá meginreglu sem stjórnvöld og löggjöfin verða að hafa í heiðri við reglusetningu og umsjón auðlindanýtingar. Ég er ekki viss um að sú regla sem hér á að setja muni takmarka löggjafann nægilega. Ég set stórt spurningarmerki við það en fagna umræðunni um þau mál og bind vonir við að við komumst áfram með málið hér.

Efni ákvæðisins um náttúruauðlindirnar er þríþætt. 1. mgr. varðar náttúruauðlindir Íslands almennt séð. Þar fáum við að heyra og sjá meginsjónarmiðin sem liggja skulu nýtingunni til grundvallar. Þar fáum við að heyra að ríkinu sé falið eftirlit með auðlindanýtingu. 2. mgr. fjallar um auðlindir og landsréttindi í þjóðareign og réttaráhrif þess að lýsa sameiginleg gæði í þjóðareign. Þar er fjallað um hlutverk ríkisins gagnvart þjóðareignum. Svo er 3. mgr., sem ég hef verið að fjalla um hér, um veitingu heimilda til nýtingar auðlinda og landsréttinda sem eru í þjóðareign eða í eigu ríkisins og kveðið á um hver grundvallarskilyrðin eru fyrir því að slíkar heimildir séu veittar. Ég myndi telja það mjög til bóta ef stjórnarskráin okkar fengi ákvæði sem gæti rammað það loksins almennilega inn hver sýnin er að þessu leyti. Margt er hér gott en ég get ekki séð að svör við stóru spurningunum séu í frumvarpinu eins og það liggur fyrir nú því eftir stendur að það sem kallað hefur verið eftir er því miður ekki í textanum sjálfum.