151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta eru skiljanlegar vangaveltur hjá hv. þingmanni og ekki síst vegna þess að ef við erum raunsæ þá er það þannig að auðlindir í náttúru landsins geta verið mjög fjölbreytilegar. Aðstæður hvað varðar nýtingu þeirra geta verið mjög fjölbreytilegar. Þess vegna getur verið mjög erfitt að setja eina reglu sem gildir yfir allt sviðið eða, ef við orðum það þannig, að hafa í stjórnarskrá ákvæði sem setur tiltölulega þröng mörk um það hvernig reglusetning á viðkomandi sviði eigi að vera.

Í andsvörum við hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur áðan vék ég aðeins að stöðunni í öðrum löndum. Staðan er nú sú, þannig að það sé sagt, að ákvæði af því tagi sem hér er til umræðu eru tiltölulega mjög fátíð í stjórnarskrám landanna í kringum okkur og stjórnarskrár þar sem settar eru fram einhverjar hugmyndir um þjóðareign eru nánast óþekktar í löndum sem búa við svipað stjórnarfyrirkomulag og réttarkerfi og við. Það þarf að leita til ríkja í Suður-Ameríku eða Afríku, held ég, fyrst og fremst til þess að finna einhvern samhljóm við ákvæði af þessu tagi. Almennt hefur verið litið svo á, held ég, í löndunum í kringum okkur sem búa við sams konar stjórnarfyrirkomulag og lagakerfi að reglum á þessu sviði sé best skipað með almennum lögum en reglur af því tagi eigi ekkert erindi í stjórnarskrá.