151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[18:41]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þetta sé einmitt hárrétt ábending og ef ég get upplýst um það líka hér þá finnst mér þegar ég rýni m.a. í ræður hæstv. forseta lýðveldisins Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar, ákall hans einmitt hafa verið í þá veru að ekki bara breyta þessum kafla stjórnarskrárinnar heldur að ef það eigi að breyta þessum kafla að það verði þá skýrt hver valdmörkin eru og sem minnstur efi verði um valdsvið hans, framkvæmdarvalds, löggjafarvalds o.s.frv. Ég held að við eigum að taka þá áskorun okkar ástsæla forseta mjög alvarlega þegar kemur að þessu og skýra þau valdmörk.

Ég myndi gjarnan vilja líka fá álit reynsluboltans og hv. þm. Birgis Ármannssonar hér á þingi varðandi þá breytingu á ákæruvaldinu og ráðherraábyrgð, hvernig hann sér þá breytingu. Ég tel að það sé verið að gefa ákveðin fyrirheit um að þetta sé skynsamlegt skref en ég myndi gjarnan vilja heyra hvort það séu ákveðnar áhyggjur sem hann hefur af þeirri tillögu sem liggur fyrir í þá veru. Ég held að ég láti þetta duga í bili.