151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[19:22]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það að festa í stjórnarskrá, sem verður ekki, eins og við vitum, svo auðveldlega breytt, að taka eitthvað sem heitir fullt gjald geti orðið okkur til vandræða. Það getur líka skapað ágreining um hvað er fullt gjald o.s.frv. Við sköpum ákveðinn vanda og svo getum við ekki breytt þessu þannig að við felum dómstólum að finna út úr því hvað er fullt gjald á hverjum tíma o.s.frv. Það eigum við að gera hér í pólitíkinni á hverjum degi í mínum huga og skýra það út hvernig við ætlum að skattleggja eða taka gjöld af atvinnugreinum og auðlindum. Það er miklu einfaldari leið. Það er ætlast til þess að við gerum þetta með lögum. Ég veit að margir vilja hafa það í stjórnarskrá að eitthvað sé þjóðareign, sem eru algjör nýmæli og ég kannast ekki við slík ákvæði í vestrænum lýðræðisríkjum. Fyrir mér er það blanda af einhverjum popúlisma og sósíalisma, sem fara auðvitað mjög vel saman eins og ég skil þetta. Það er svo auðvelt að fá fólk til að segja: Já, ég á þetta, þetta er eitthvað sem ég á. En það er alveg ónauðsynlegt af því að eignarréttur verður ekki til svona í mínum huga. Þetta eru auðvitað bara auðlindir okkar alveg eins og Ísland er landið okkar og sjórinn er okkar, vindurinn er okkar. Það gilda bara ákveðnar reglur um þetta sem við setjum á hverjum tíma. Það er mikilvægast. Ég held að það sé ekki gott að við séum að búa til svona ákvæði vegna þess að það muni skapa í raun miklu meiri vanda en fyrirkomulagið sem er núna. Ég vil það ekki. Ég tel það mjög skaðlegt. Ég tel mig hafa fært fyrir því þokkaleg rök hér í allan dag að þetta sé ekki skynsamlegt.