151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

skattur af lífeyristekjum og arðgreiðslum.

[13:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er bara löng buna af rangfærslum sem maður situr undir. Í fyrsta lagi hafa kjör þeirra sem minnst hafa milli handanna af þeim sem fá bætur frá almannatryggingum batnað hraðast á undanförnum árum. Kjör þeirra hafa batnað hraðar en þeirra sem hafa meira á milli handanna en þiggja þó eitthvað úr almannatryggingakerfinu. Má ég vekja athygli á einni staðreynd? Það er ekkert sjálfsagt að ríki séu í aðstöðu til þess að bæta þeim upp sem ekki hafa náð að nýta starfsævina til að leggja til hliðar eða byggja upp lífeyrisréttindi með jafn myndarlegum hætti og við Íslendingar höfum gert og erum sífellt að bæta í. Það er ekki sjálfsagt. En á sama tíma og við erum að gera það erum við líka, þeir sem eru núna á vinnumarkaði, að greiða fyrir ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar fyrri ára. Það erum við að gera á hverju ári. Við erum að borga 7–8 milljarða á ári og munum gera núna í 30 til 35 ár. Þar fyrir utan eru vinnandi einstaklingar í dag að taka á sig að leggja til hliðar þannig að enginn annar þurfi að taka til eftir þá. Ofan á allt þetta erum við að fjármagna almannatryggingar. Þannig að ég segi: Þegar á heildina er litið erum við að gera mjög vel.