151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Það er betra seint en aldrei að við séum, bæði heilbrigðisráðherra og þjóðin, farin að sjá ljósið við endann á Covid-faraldrinum. Fyrir um ári síðan kom Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hér upp í ræðustól og gerði kröfu um að við tækjum okkur Nýja-Sjáland til fyrirmyndar og lokuðum landamærunum, sæjum til þess að veiran slyppi ekki inn. Hún fór í Kastljós á RÚV og þar var hún eiginlega höfð að háði og spotti fyrir þessa tillögu. Núna, rétt rúmu ári seinna, er þetta hárrétt tillaga. Hvernig sjáum við það? Jú, við sjáum það á Nýja-Sjálandi, hvernig staðan er þar. 5 milljóna manna þjóð með 25 dauðsföll, mun færri smitaðir en hjá okkur. Þar kemur líka upp hversu furðuleg þessi veira er og hvernig hún getur smogið fram hjá öllu. Hún fer inn í gegn hjá þeim sem eru að þjónusta flugvélar, það er nýjasta dæmið. Þar eru lokanir, þeir eru fljótir að loka fyrir veiruna. En hvað erum við að tala um að gera hér?

Ég segi að við eigum að taka upp það sem Nýja-Sjáland er að gera. Við eigum að sjá til þess á landamærunum að veiran sleppi ekki inn. Hvers vegna eigum við að gera það? Vegna þess að við höfum allan hag af því. Við getum opnað hérna íþróttaviðburði, útiskemmtanir, alls konar hluti. En hvað þurfum við? Við þurfum ekki að hafa þetta nema í fjóra til sex mánuði. En hugsið ykkur ef við fáum breska afbrigðið eða suður-ameríska hingað inn, það yrði alveg skelfilegt. Og þessi PCR-próf — það var falsað, þeir fóru inn í Noreg á fölsuðu prófi.