151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

Covid-19 og horfurnar fram undan, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. -- Ein umræða.

[14:51]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta og brýni hana áfram í þróun á endurhæfingarúrræðum varðandi Covid. Við sjáum það með þessum framförum í læknavísindunum, hvað við höfum náð miklum árangri, að við þurfum að vinna mikið með endurhæfinguna til að sjá til þess að fólk geti komist aftur út í lífið og aftur út í sína vinnu.

En aðeins varðandi önnur eftirköst Covid. Ég kom áðan inn á geðræktina og einmanaleikinn var nú vandamál fyrir — meira að segja þjóðir eins og Bretar voru komnar með sérstök ráðuneyti sem áttu fjalla um einmanaleika. Hverjar eru áætlanir okkar í að vinna með það varðandi eldri hópinn sérstaklega? Það má líka nefna brottfall ungmenna úr íþróttum og sagt hefur verið frá því í fréttum að 3.000 ungmenni hafi flosnað upp úr íþróttum eftir Covid. En það er líka eitthvað jákvætt við Covid, margir tala um minna stress, meiri samveru með fjölskyldunni. Talandi um samveru með fjölskyldunni þá hygg ég að margar fjölskyldur hyggist reyna að fara norður í land og nota snjóinn og fara á skíði í vetrarfríinu sem fram undan er. Getur hæstv. ráðherra ekki glatt fjölskyldur landsins með því að auka aðeins afköst á skíðasvæðinu í vetrarfríinu?