Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[16:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsöguna. Hann flytur þetta mál hér í annað sinn eins og hann nefndi réttilega. Það sem ég vildi koma inn á í þessu andsvari við hæstv. ráðherra er kostnaðurinn. Við sem sitjum í fjárlaganefnd verðum að hugsa um hverja einustu krónu núna þar sem skuldir ríkissjóðs eru orðnar gífurlegar. Með þessari breytingu, sem er grundvallarbreyting, er verið að veita kvótaflóttamönnum sömu þjónustu og þeim sem fá hér dvalarleyfi út á alþjóðlega vernd. Við tókum á móti 85 kvótaflóttamönnum á síðasta ári en 631 hælisleitanda sem fékk dvalarleyfi. Hvernig getur hæstv. ráðherra sagt að kostnaðurinn við þetta frumvarp sé einungis 24 milljónir þegar ljóst er að við þurfum að veita hér 631 einstaklingi á ári sömu þjónustu og við veitum 85 einstaklingum þegar við tökum á móti þeim sem kvótaflóttamönnum? (Forseti hringir.) Ég fæ þetta ekki til að ganga upp, hæstv. ráðherra. Ég held að það fara verði nákvæmlega yfir kostnaðinn sem fylgir þessu frumvarpi (Forseti hringir.) því að lögum samkvæmt verður að kostnaðargreina þetta frumvarp og því held ég að sé algerlega ábótavant.