151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:10]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að allir geri sér grein fyrir því að það sem hér er talið fram sem kostnaður í þessu frumvarpi er ráðning á tveimur starfsmönnum í viðbót í þágu þeirra sem sækja sér hæli og biðja um alþjóðlega vernd á Íslandi. En það er ekki sú upphæð sem hér er undir. Nei, upphæðin sem hér er undir er að það á að veita öllum þeim sem hingað rata sömu aðstoð. Það kostar ekki 23,7 milljónir, hv. þingmaður, herra forseti.

Það er hins vegar ágætisendir á samræðum og umræðum og rökræðum að segja þegar maður er kominn upp að vegg: Mér er bara alveg slétt sama. Það kann vel að vera að mönnum sé alveg slétt sama, en þegar við erum á Alþingi Íslendinga sem hv. þingmenn þá höfum við ekki efni á því að vera alveg slétt sama vegna þess að allt sem við samþykkjum hér og gerum hér hefur áhrif. Og ef okkur er slétt sama um áhrifin þá fer ekki mjög vel fyrir þeim ákvörðunum sem við tökum hér. Og það sem verra er, þær hafa áhrif á líf annarra. Þegar talað hefur verið um að ala á útlendingaandúð þá er það náttúrlega fyrir neðan allar hellur, herra forseti. (Gripið fram í.) En ef við ætlum að taka á móti fólki að utan þá þurfum við að taka sómasamlega á móti því. Við þurfum að taka á móti það miklum fjölda að við ráðum við að taka sómasamlega á móti þeim fjölda sem hingað ratar. Það er engin andúð í því og við höfum bent á það mjög oft, eins og Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, að það er hægt að hjálpa fleirum miklu meira með því að beina þeim fjármunum sem hér eru til ráðstöfunar nær heimkynnum þeirra sem hingað rata, sem eru í mestri neyð. Þess vegna vil ég spyrja þingmanninn aftur: Hefur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, sem er akkúrat með þessa stefnu, svona rosalega mikið rangt fyrir sér? Í öðru lagi: Elur Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna á útlendingaandúð eða flóttamannaandúð?