Bráðabirgðaútgáfa.

151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[19:52]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á þessum spurningum aftan frá og byrja á þeirri sem hv. þingmaður bar fram síðast um það hvort ég teldi að frumvarpið hefði þau áhrif að umsóknum í gegnum Útlendingastofnun myndi fjölga stórlega. Ef maður skoðar hver stuðningurinn er í nágrannalöndum okkar, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku, sem öll eru að keyra á sama kerfi hvað þetta snertir — ef þú skoðar lengdar tímalengdina þar, t.d. í Noregi, getur það farið upp í fimm ár sem flóttamaður er að fá þjónustu hjá sveitarfélagi með stuðningi ríkissjóðs. Við erum að fara að gera tilraunaverkefni í eitt ár. Ég hef ekki þá trú, hv. þingmaður, að það muni hafa stórkostlega sprengju í för með sér þegar kemur að umsóknum. Við erum ekki að breyta lögum um inngöngu. Útlendingalögin eru ekki að breytast neitt í þessu.

Hins vegar er það svo að ástæðan fyrir því að við höfum þetta sem reynsluverkefni í eitt ár er sú að það kunna vel að vera óvissuþættir í þessu. Þess vegna er þetta bara til reynslu í eitt ár, hv. þingmaður. Þess vegna erum við að falast eftir því við sveitarfélögin að fara í þetta reynsluverkefni til að afla þessarar þekkingar og reynslu. Með hvaða hætti gerum við þetta best? Hvaða áhrif hefur þetta o.s.frv.? Alltaf þegar þú ert að gera eitthvað nýtt eru alltaf óvissuþættir til staðar og það þekkir hv. þingmaður sjálfur hafandi verið í atvinnulífi og öðru. Það eru alltaf óvissuþættir þegar þú ert að gera eitthvað í fyrsta skipti. Ég ætla ekki að draga úr því að svo geti verið í þessu máli og þess vegna er þetta bara til eins árs.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hverju sé verið að breyta. Við erum að samræma ákveðna þjónustu. Ég nefni til að mynda tannlæknaþjónustu, sálfræðiþjónustu og annað, sem eyrnamerktar upphæðir voru í eins og kerfið var gagnvart (Forseti hringir.) kvótaflóttamönnum. Við erum að samræma það reglum sveitarfélagsins í hverju tilfelli. Sveitarfélögin eru að taka þann kostnað með ákveðnum hætti en við komum með aðra þætti á móti og það getur allt komið fram í samningum sem gerðir hafa verið við einstaka sveitarfélög um þetta.