151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

456. mál
[20:13]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er bjartsýnn að eðlisfari. En varðandi þessa vinnu almennt hef ég ekki skynjað að ekki sé vilji til að finna lausn á málinu. Þetta er ekki svona, skulum við segja, stál í stál stemning eins og maður þekkir í málum sem vaninn er að setja í gerðardóm. Hins vegar held ég að í fyrsta lagi sé ákveðinn ómöguleiki fólginn í því að veita þessa þjónustu og láta hana vera innan ramma. Eðli þjónustunnar er þannig að það er mjög erfitt að hafa t.d. hálftíukaffi og svo aftur hádegismat, skiljið þið. Það er ákveðinn ómöguleiki í því. Í öðru lagi, því það er ekki verið að höggva á eitthvað eitt, þarf að finna einhvers konar framtíðarfyrirkomulag. Ég held að það sé best fundið með því að reyna að halda samtalinu áfram og leita leiða til þess að fyrirkomulagið komi út úr því, og að við framlengjum bráðabirgðaákvæðið. En ég held að það verði líka erfitt fyrir stéttarfélögin að gefa eitthvað eftir í samningum, t.d. boðaða hvíldartíma sem hefur kannski tekið áratugi að berjast fyrir. Menn vilja ekki opna á það heldur. Þess vegna er verið að leggja til að fresta þessu enn eina ferðina. Vonandi getum við fundið gott framtíðarfyrirkomulag og þessir aðilar geta notað tímann meðan við erum í kosningum og kosningabaráttu og að jafna okkur eftir það og mynda nýjar ríkisstjórnir og annað, þá getur þessi nefnd starfað og komið með tillögu fyrir nýtt þing.