151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Evrópuráðsþingið 2020.

493. mál
[14:22]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Stutta svarið við fyrri hluta spurningarinnar er já, að vissulega megi bæta ýmislegt þegar kemur að þátttöku okkar í starfi Evrópuráðsþingsins, þ.e. að bæta af hálfu þingsins, aflétta takmörkunum á þátttöku þingmanna í nefndarstarfi sem skilar okkur miklu. Og af því að við erum með forseta sem stýrir þingfundi núna og situr í formennsku fyrir nefnd er fjallar um alþjóðastarf þingsins og vegur það og metur og leggur til góðar tillögur, þá vil ég beina spurningunni til forseta. Ég held að við sem höfum setið í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins getum stungið upp á góðum hlutum í þeirri vinnu.

Varðandi seinni hluta spurningarinnar um gervigreindina og áhrif hennar á málefnasvið Evrópuráðsins þá er það rétt sem hv. þingmaður bendir á að á fundi í október síðastliðnum samþykktum við heilar sjö skýrslur um notkun gervigreindar og áhrif hennar á málefnasvið, þ.e. mannréttindi, lýðræði, lög og reglur. Þegar við samþykkjum skýrslu erum við yfirleitt að samþykkja skýrslu sem tekur á bilinu eitt til eitt og hálft ár að semja og koma fram með tillögur, þannig að það að samþykkja sjö skýrslur er gríðarlega afkastamikið verk og sýnir líka að Evrópuráðið hefur staðið sig gríðarlega vel þegar kemur að gervigreind og núningi gervigreindarinnar við mannréttindin. Þarna er eitthvað sem við þurfum að taka meira til okkar og fjalla meira um og ég held að hv. þm. Smári McCarthy væri algerlega tilvalinn í þá umræðu, þ.e. um snertifleti mannréttindanna og gervigreindarinnar. Ég held líka að Ísland geti sótt í þennan reynslubrunn Evrópuráðsins þegar kemur að gervigreindinni og við eigum að gera það.