151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

126. mál
[15:42]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli. Flutningsmenn auk þess sem hér stendur eru hv. þingmenn Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorsteinn Sæmundsson.

Alþingi ályktar að fela samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að láta gera ítarlega athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar eigi síðar en í maí 2021.

Í greinargerð stendur:

Þingsályktunartillaga svipaðs efnis var fyrst lögð fram á 144. löggjafarþingi og síðast á 150. löggjafarþingi. Öryggi samgangna þarf að tryggja með sem bestum hætti, hvort sem um er að ræða samgöngur á jörðu, sjó eða í lofti. Núna eru fjórir meginflugvellir á Íslandi, Reykjavíkurflugvöllur, Keflavíkurflugvöllur, Egilsstaðaflugvöllur og Akureyrarflugvöllur. Þessir flugvellir gegna allir mikilvægu hlutverki í samgöngum innan lands og milli landa sem farþega- og vöruflutningavellir og sem öryggistæki.

Vegalengdir milli þessara valla eru nokkrar. Milli Akureyrar og Reykjavíkur eru um 390 km, milli Reykjavíkur og Egilsstaða um 650 km og milli Akureyrar og Egilsstaða um 265 km. Af þessu má sjá að vegalengdin milli Reykjavíkur og Egilsstaða er allnokkur og sýndi það sig berlega að verulegt óhagræði var að því þegar gaus í Eyjafjallajökli að Akureyrarflugvöllur var eini flugvöllurinn sem nýttist og mikilvægi hans sannaðist að sama skapi.

Milli Sauðárkróks og Akureyrar er vegalengdin aðeins um 120 km. Milli Sauðárkróks og Reykjavíkur eru í kringum 295 km. Íbúar höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja búa við það að í næsta nágrenni eru virk eldfjallasvæði eins og Bláfjöll og Krýsuvík. Land er að rísa í Krýsuvík og jarðskjálftar tíðir á þeim slóðum sem kallar enn og aftur á vangaveltur um stöðu samgangna til og frá höfuðborgarsvæðinu sem og til og frá landinu. Það kann því að vera mikilvægur öryggisþáttur fyrir landsmenn og gesti landsins að öryggi þeirra til samgangna sé tryggt enn frekar.

Augljóst er að töluverðu munar á vegalengdum og ferðatíma á milli Egilsstaða og Reykjavíkur annars vegar og Sauðárkróks og Reykjavíkur hins vegar. Akureyrarflugvöllur er mikilvægur fyrir allt Norðurland, ekki síst vegna aukins farþegaflugs innan lands og til útlanda, og Egilsstaðaflugvöllur er að sama skapi mikilvægur fyrir Austurland. Þá gegnir flugvöllurinn á Akureyri lykilhlutverki vegna sjúkraflugs.

Alexandersflugvöllur er vel staðsettur þar sem aðflug er gott, fjörðurinn víður og lítið um hindranir. Flugvöllurinn vísar í norður/suður, sem eru einnig ríkjandi vindáttir á þeim slóðum, og þá er staðsetning vallarins hagstæð með tilliti til snjóa. Í gögnum frá Vegagerðinni frá árinu 2019 kemur fram að þjóðvegurinn frá Sauðárkróki til Reykjavíkur hafi aðeins verið lokaður í 0,7 daga á ári frá árinu 2011 en á sama tíma hafi þjóðvegurinn frá Egilsstöðum til Reykjavíkur lokast í 2,5 daga á ári á syðri leiðinni en 9,7 daga ef norðurleið var farin. Einnig er vakin athygli á því að frá Sauðárkróki til Reykjavíkur og til Akureyrar sem og til Egilsstaða eru fleiri en ein leið og því er möguleiki á varaleið ef þjóðvegur 1 lokast. Því er ljóst að staðsetning vallarins er góð sé litið til færðar og samgangna á landi.

Flutningsmenn telja einsýnt að verulegur ávinningur gæti verið að því að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll fyrir Reykjavík og Keflavík. Þá er augljóst að slíkur flugvöllur mun þjóna Akureyri og Egilsstöðum vel sem varaflugvöllur og tryggja og treysta þá mikilvægu starfsemi sem þar er rekin í sambandi við ferðaþjónustu og flug almennt. Í ljósi þessa er því beint til ráðherra að ráðast í nauðsynlega undirbúningsvinnu og rannsóknir til að hægt sé að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd og er lagt til að ráðherra láti kanna kosti þess að gera Alexandersflugvöll að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll.. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður þeirrar könnunar eigi síðar en í maí 2021.

Hæstv. forseti. Frá því að þessi tillaga var flutt fyrst eru liðin nokkur ár og síðan þá hefur ýmislegt breyst. Ferðamönnum hefur fjölgað mikið, þó að ekki sé það á því síðasta, og vonandi fjölgar þeim aftur eftir Covid. Þar af leiðir er brýnt að koma þessum flugvelli í gott horf til að auka flugöryggi og bæta aðgengi fyrir ferðamenn. Af því að tillagan snýst um að gera Alexandersflugvöll að varaflugvelli langar mig að nefna að hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir flutti þingsályktunartillögu fyrir ekki svo löngu síðan um jöfnun eldsneytiskostnaðar. Ef það fengist í gegn að Alexandersflugvöllur yrði líka gerður að varaflugvelli fyrir millilandaflug — en ekki er svo langt síðan farið var í þá vinnu að kanna hvort fá mætti ferðafólk eða flugvélar beint á varaflugvelli. Gera átti tilraunir með það á Egilsstöðum en frá því var horfið, m.a. vegna þess að eldsneytiskostnaður var það hár að flugfélögin hurfu frá því. Mig langar að koma aðeins inn á greinargerðina með þeirri þingsályktunartillögu. Þar stendur:

Samkvæmt lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara skal jafna flutningskostnað á olíuvörum eins og nánar er þar kveðið á um. Markmið laganna er að tryggja að eldsneytisverð sé hið sama um allt land til að jafna búsetuskilyrði og samkeppnisstöðu fyrirtækja. Jöfnun á flutningskostnaði á hins vegar ekki við um eldsneyti sem er ætlað til útflutnings og fellur þar undir eldsneyti til millilandaflugs og því er eldsneyti dýrara á millilandaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum heldur en í Keflavík.

Mig langaði bara til að skjóta þessu inn í hér til að vekja athygli á því að hve brýnt er að jafna eldsneytiskostnað samfara því að fjölga varaflugvöllum svo að flugfélög, ferðaþjónustuaðilar og allur sá pakki sjái sér hag í því að nýta flugvelli sem víðast. Það kemur greinilega fram í greinargerðinni hvað Alexandersflugvöllur liggur vel til flugs landfræðilega. Þar er vítt til fjalla miðað við á mörgum öðrum stöðum og ríkjandi vindáttir eru í raun og veru eins og stefna flugvallarins, þ.e. norður og suður. Norðanáttir og sunnanáttir eru ríkjandi. Staðkunnugir segja mér það sé nánast alltaf hægt að lenda á Alexandersflugvelli, bæði út af veðri og eins af því að ekki er mikið um þoku og annað slíkt. Það er alveg ljóst að þetta er mikil vinna og mikill kostnaður, en öll ferðalög byrja á einu skrefi. Það þarf að koma þessari vinnu á rekspöl svo að við getum undirbúið framtíðina betur. Samgöngur eru það sem við fjöllum mikið um á Alþingi og samgöngumál á vegum landsins eru þannig að við erum langt á eftir sjálfum okkur í því að vera á pari við kröfur nútímans um samgöngur. Það sama má segja um flugið líka og kosti þess að hafa lendingarstaði sem dreifðasta um landið, bara upp á samgönguþjónustu.

Að þessu sögðu geri ég mér vonir um að tillagan fái góða og gegna vinnu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og ætla ekki að hafa þetta lengra.