151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

126. mál
[15:53]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Það er erfitt að sitja hljóður hjá þegar fjallað er um samgöngumál, einkum þegar fjallað er um samgöngumál á landsbyggðinni, hvort sem það er á landi eða í lofti. Miklar breytingar eiga sér stað í samgönguháttum um þessar mundir. Við lifum áhugaverða tíma hvað varðar samgöngumál og sitthvað er að gerast. Breytingar eru í viðhorfum fólks til ferðalaga, bæði innan lands og utan, og samgöngur eru að batna. Vegir eru sömuleiðis að taka stórum framförum og spennandi að fylgjast með þeirri þróun. Ég ætla aðeins að horfa um öxl og gera grein fyrir flugmálunum og þessum góða flugvelli sem við eigum í Skagafirði. Það þykir kannski gamaldags að horfa um öxl og þykir frekar tímanna tákn að lifa í núinu eins og það er kallað. En við skulum vera minnug hinna sígildu orða: Að fortíð skal hyggja ef frumlegt skal byggja. Þau eiga alltaf við.

Saga flugs er merkilegur hluti af atvinnu- og menningarsögu okkar hér á Íslandi. Hún hefur alla tíð verið sveipuð einhvers konar ljóma og spennu. Tímamótin voru mikil í samgöngum á Íslandi þegar farþegaflug hófst hér á fimmta tug síðustu aldar. Þá var vegakerfið enn mjög frumstætt víða um land. Fyrst voru þetta eins hreyfils sjóflugvélar sem tóku sig á loft, ein og ein. Í kjölfarið urðu til fyrirtæki, stórveldi á íslenskan mælikvarða, Loftleiðir og Flugfélag Íslands. Skagfirðingar stimpluðu sig snemma inn í sögu flugsins á Íslandi. Upphaflega var flugvöllur lagður á svokölluðum Borgarsandi árið 1949 en þar lenti fyrsta landvélin árið 1938. Borgarsandur er, eins og staðkunnugir þekkja, slétt og allvíðáttumikið sandflæmi sem nú er orðið gróið að miklu leyti. Það liggur við botn Skagafjarðar, að vestanverðu frá Sauðárkróki. Á þessum árum, síldarárunum, tengdust Skagfirðingar líka fluginu með öðrum hætti þegar ungir flugmenn og ofurhugar höfðust við á Miklavatni og fóru þaðan í sjónflug á skíðisvélum sínum í leit að síld fyrir Síldarverksmiðju ríkisins sem hélt úti síldarflugi. Þetta úthald hófst snemma að sumri og gekk fram á haust. Nýr völlur var svo tekin í notkun í október 1976. Árið 1988 var efnt til flughátíðar á Sauðárkróki og hlaut völlurinn þá nafnið Alexandersflugvöllur. Það er til heiðurs Alexander Jóhannessyni, háskólarektor og miklum frumkvöðli í flugmálum, en hann var alinn upp á Sauðárkróki. Hann var raunar farþegi í fyrstu flugvél sem lenti þar en það var þegar sjóflugvélin Súlan lenti fyrir framan Villa Nova á Sauðárkróki sumarið 1928.

Eins og áður er getið voru vegir á þessum tíma óburðugir og seinfarnir auk þess sem bílaeign landsmanna var ekki almenn. Að komast á skammri stund á milli landshluta í lofti var því bylting. Þetta nýttu heimamenn sér í ríkum mæli. Áætlunarflug hófst frá Sauðárkróki árið 1949 og átti sér því yfir 60 ára sögu áður en yfir lauk. Hin síðari ár hefur það reynst erfitt í ljósi breyttra tíma og betri samgangna á landi. Síðast var gerð tilraun til áætlunarflugs til Sauðárkróks í byrjun desember 2017, sem tilraunaverkefni í hálft ár. Auðvitað ríkti mikil ánægja með það í Skagafirði þegar flugið hófst á ný eftir nokkurra ára hlé. Ríkið styrkti verkefnið með nokkru fé, en alla jafna hafði þessi flugleið ekki verið styrkt, og auðvitað var allt reynt, t.d. að fá fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir á Norðurlandi vestra til að styrkja verkefnið með því að kaupa miða eða niðurgreiða til félagsmanna sinna. En betur hefði mátt til að duga og fluginu var því hætt að loknu tilraunatímabilinu.

Herra forseti. Aðstæður til flugs á Sauðárkróki eru, eins og fram hefur komið og kom vel fram hjá hv. flutningsmanni þessarar góðu tillögu sem ég styð auðvitað, allar hinar bestu og völlurinn er mjög vel í sveit settur, ef svo má segja. Þótt grundvöllur fyrir innanlandsflugi sé veikur um þessar mundir þá er spá mín og margra fleiri sú að það kunni að breytast fyrr en síðar. Til mikils er að vinna að setja engar girðingar, loka engum möguleikum hvað varðar þennan samgöngumöguleika. Þess má geta að Flugakademía Íslands sýndi aðstöðunni á Alexandersflugvelli mikinn áhuga fyrir nokkrum misserum og nýtti flugvöllinn til kennslu og þjálfunar fyrir nemendur. Flugakademían gerði sérstakan samning við heimamenn og þetta lofaði góðu. En við sjáum svo sem fyrir okkur hvað gerðist, Covid kom.

Herra forseti. Við sjáum skammt inn í framtíðina en það er vel mögulegt að ímynda sér að þróun í ferðaþjónustu verði á þann veg að ferðamenn og gestir vilji í ríkara mæli komast beint á viðkomandi landsvæði með þægilegum hætti. Við erum á fleygiferð, fljúgandi siglingu, inn í nýja tækniöld með orkuskiptum. Innan tíu ára verða komnar til sögunnar flugvélar knúnar rafmagni eða öðru vistvænu eldsneyti og starfræktar í atvinnuskyni. Þá opnast enn nýir möguleikar í farþegaþjónustu um loftin blá. Þegar er mikil hreyfing í þessa veru. Bandarísk fyrirtæki vinna að hönnun á þessum rafknúnu farartækjum í lofti og miklir peningar eru í spilinu. Bandarískir hönnuðir eru komnir með vélar í tilraunaflug sem ná 240 km flugdrægni. Við getum séð í hendi okkar hvað það þýðir t.d. fyrir þessa leið. Síðan eru sænsk fyrirtæki komin vel á veg í þróun sinni og gera ráð fyrir að hefja jafnvel farþegaflug strax árið 2026 með 19 sæta flugvélum. Þar er gríðarlegur sparnaður í eldsneyti og í viðhaldi. Sænsku vélarnar þurfa ekki mjög langar flugbrautir en þær hafa drægi upp í jafnvel 400 km.

Við horfum auðvitað upp á endurtekningu sögunnar að þessu leyti. Flugið er að ganga í endurnýjun lífdaga. Við erum að byrja með litlar flugvélar, tveggja sæta flugvélar sem geta flogið t.d. til Sauðárkróks og til baka. Það er mögulegt í dag og þessar vélar komast hugsanlega í notkun strax á næsta ári. Svona mun þessu vinda fram. En hvað höfum við á Íslandi gert? Höfum við fylgst með þróuninni? Ég tel að við höfum ekki gert það nægilega vel. Það var fyrst núna í haust að fram kom tillaga á vegum okkar Samfylkingarmanna, sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir mælti fyrir í október, um að móta stefnu um að rafvæða flugferðir sem eru styttri en 90 mínútur fyrir árið 2040 og hefja rannsóknir og undirbúning þegar í stað. Hv. umhverfis- og samgöngunefnd tók þessa tillögu upp á sína arma, lagði á hana hald og skilaði nýrri tillögu um orkuskipti í flugi á Íslandi. Miðað er við að þetta gæti gerst hið fyrsta.

Herra forseti. Það er mikilvægt að við öndum djúpt, vörumst að brenna brýr að baki okkar hvað þennan samgöngukost snertir og gætum þess að viðhalda mannvirkjum eins og kostur er. Í því er fólgið öryggi fyrir íbúana í nálægum byggðarlögum og í því eru líka (Forseti hringir.) fólgnir margvíslegir nýtingarkostir, eins og aðeins hefur verið drepið á. Margir möguleikar eru skrifaðir í skýin þótt skriftin nú sé ógreinileg okkur enn sem komið er. Það mun allt skýrast.