151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

meðferð sakamála.

129. mál
[16:25]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um meðferð sakamála. Samkvæmt frumvarpinu yrði óheimilt að taka myndir eða taka upp hljóð í dómshúsum og óheimilar myndatökur og hljóðupptökur af sakborningum, brotaþolum eða vitnum á leið í dómshús eða frá því án samþykkis þeirra. Meginreglan er sú að þinghald skuli háð í heyranda hljóði, samanber 10. gr. laga um meðferð sakamála, eins og tekið er fram í greinargerð. Fyrir vikið er fjölmiðlum heimilt að vera viðstaddir þinghöld og greina frá því sem þar fer fram. Þannig viljum við líka hafa það. Það sem fer fram í réttarsölum landsins á erindi við almenning, bæði málflutningurinn sem og sjálf störf dómstólanna.

Þessi tillaga mun því ekki koma í veg fyrir fréttaflutning. Fjölmiðlar myndu áfram greina frá öllu því sem fram fer í réttarsölum landsins og nafngreina vitni, sakborninga og þolendur eftir því sem við á. Eini munurinn yrði sá að fjölmiðlar myndu myndskreyta fréttir sínar úr dómstólum með öðrum hætti en þeir gera í dag. Ef fjölmiðillinn á til að mynda eldri mynd af sakborningi í myndasafni sínu myndi hann vitaskuld styðjast við hana. Þetta bann kæmi því aðeins í veg fyrir að fjölmiðlar gætu stuðst við nýjar myndir af fólkinu sem á í hlut. Það sem meira er og alvarlegra er að þessi tillaga væri til þess fallin að auka ónákvæmni í fréttum sem skrifaðar væru úr dómsölum landsins. Fengi fréttafólk ekki lengur að styðjast við hljóðupptökur og mætti aðeins hraðrita það sem færi fram í þinghaldinu má vænta þess að eitthvað skolist til. Erfiðara væri fyrir fréttafólk að grípa nákvæmt orðalag þeirra sem taka til máls í dómsal en eins og við öll vitum getur nákvæmt orðalag skipt öllu máli, sérstaklega í mjög viðkvæmum málum. Þessi tillaga mun því aðeins stuðla að ónákvæmari og verri fréttum úr dómsal. Það er engum til hagsbóta, hvorki fjölmiðlum né þeim sem þurfa að leita réttar síns eða svara til saka fyrir dómstólum landsins.

Það er því ekki nema von að það frumvarp sem við ræðum hér í dag skuli hafa sætt harðri gagnrýni frá Blaðamannafélagi Íslands, fréttastofu Stöðvar 2, fréttastofu RÚV sem og fleirum. Þessir aðilar hafa lagst alfarið gegn samþykkt frumvarpsins og lýst yfir furðu á framlagningu þess í ljósi tiltölulega nýlega samþykktra breytinga á lögum um meðferð einkamála, lögum um meðferð sakamála og fleiri lögum, málsmeðferðarreglur þar sem verulega var þrengt að möguleikum til hljóðupptöku og myndatöku við meðferð dómsmála. Ekki er að finna rökstuðning fyrir frekari takmörkunum í þessum efnum í greinargerð frumvarpsins.

Vandaðar umfjallanir um dómsmál eru þáttur í því að halda uppi lögum og reglum í samfélaginu. Eins er það svo að hljóð- og myndupptökur hafa ekki einungis fréttagildi heldur einnig mikilvægt heimildargildi. Með því að banna myndatökur af aðilum máls inni í dómshúsi eða nálægt því er með grófum hætti verið að skerða og takmarka möguleika fjölmiðla á að mynda og ná tali af sakborningum. Ekki er einungis verið að skerða möguleika almennings að upplýsingum heldur er einnig verið að skerða möguleika sakborninga á réttlátri málsmeðferð sem háð er í heyranda hljóði. Núverandi löggjöf gengur alveg nægilega langt hvað varðar takmarkanir á fréttaflutningi af dómsmálum og ýmsir varnaglar eru þegar til staðar, virðulegi forseti. Til að mynda getur dómari fallist á kröfu lögmanns um lokuð réttarhöld ef haldbær rök eru fyrir því. Ein af grunnstoðum lýðræðisins og lýðræðislegrar umræðu er að almenningur hafi aðgang að réttum upplýsingum og geti þar af leiðandi mótað sér upplýstar skoðanir á málefnum líðandi stundar. Það varðar beinlínis hagsmuni almennings að fjölmiðlar hafi tækifæri til að koma á framfæri viðeigandi upplýsingum um sakborninga og afbrot.

Forseti. Þetta er mál þar sem hagsmunir almennings eru ríkir. Sér í lagi ef t.d. væri um að ræða þjóðkjörna fulltrúa. Í umsögn Félags fréttamanna segir m.a., með leyfi forseta:

„Meginreglan á Íslandi er sú að réttarhöld, ekki síst í sakamálum, skulu háð í heyranda hljóði og fyrir opnum tjöldum. Það eru meiri líkur á réttri niðurstöðu ef störf dómstólsins eru opin almenningi þar sem að þá þurfa lögmenn, saksóknarar, dómarar og sakborningar að vanda sig betur. Hlutverk fjölmiðla er meðal annars að veita dómskerfinu aðhald. Almenningur þarf að sjá og heyra hvað dómstólarnir og starfsmenn réttarkerfisins aðhafast.

Félag fréttamanna telur að frumvarpið dragi úr getu fréttastofu RÚV til þess að sinna þeirri lögbundnu eftirlitsskyldu sinni að veita dómskerfinu aðhald. Dómsvaldið verður að vera sjálfstætt og varið frá öllum pólitískum áhrifum. Þar af leiðandi er aðhald fjölmiðla og almennings lykilatriði. Öll takmörkun á fréttaflutningi af dómsmálum, umfram það sem nauðsyn krefur, þarf því að byggja á sterkum og veigamiklum rökum.“

Eins og áður segir er hægt að fara fram á lokuð réttarhöld í núverandi kerfi fallist dómari á að sterk og veigamikil rök liggi fyrir því. Dómara er t.d. heimilt að ákveða að mál verði flutt fyrir luktum dyrum og þinghaldi lokað vegna hagsmuna sakbornings, brotaþola eða vitnis, vegna hagsmuna almennings eða öryggis ríkisins, til að halda uppi þingfriði eða þegar vitni gefur skýrslu án þess að þurfa að skýra frá nafni sínu í heyranda hljóði. Opinber málsmeðferð byggir á mikilvægri kröfu um gagnsæi, bæði fyrir aðila máls sem geta fylgst með framgangi þess og eins fyrir almenning sem fær að vita hvað fer fram fyrir dómstólum. Opinber málsmeðferð er því mikilvæg í því samhengi að veita dómendum aðhald sem er veigamikill þáttur í því að auka traust almennings á réttarkerfinu. Opinbert málsmeðferðarkerfi veitir fjölmiðlafólki að jafnaði heimild til að greina frá því sem fram fer fyrir dómi.

Í siðareglum blaðamanna eru ákvæði er varða umfjöllun um ólögráða einstaklinga og aðra í viðkvæmri stöðu, svo sem brotaþola og aðstandendur brotaþola og sakborninga. Fjölmiðlar meta hvert og eitt tilfelli fyrir sig og miða umfjöllun sína við siðareglur blaðamanna. Eins er það ekki hlutverk dómstóla eða fjölmiðla að kveða á um sekt manna eða sýknu. Hver maður telst saklaus uns sekt hans er sönnuð, samanber stjórnarskrá. Samsvarandi sjónarmið er að finna í 3. mgr. siðareglna Blaðamannafélags Íslands. Í umsögn Ríkisútvarpsins kemur fram, með leyfi forseta:

„Myndir af þeim sem tengjast dómsmáli; málsaðilum, lögmönnum og dómurum og öðru því sem fram fer í dómshúsi eru óaðskiljanlegur hluti frásagnar af málinu. Með því að banna myndatökur í dómhúsi eru settar óhóflegar hömlur á fréttaflutning sem ganga gegn hugmyndum um tjáningarfrelsi. Slíkt bann er til þess fallið að draga verulega úr umfjöllun um dómsmál og vitund almennings um það sem fram fer hjá dómstólunum. Dómsvaldið er ein þriggja stoða ríkisvaldsins. Álit þetta er ritað í þeirri trú að umfjöllun um dómstóla sé nauðsynleg og jákvæð í lýðræðissamfélagi. Með henni fái almenningur skilning á starfsemi þeirra og vitund um rétt sinn. Með vandaðri umfjöllun aukist tiltrú almennings á starfi dómstólanna öllum til heilla.

Spurningar vakna um ákvæði frumvarpsins þess efnis að myndatökur og hljóðupptökur af sakborningum, brotaþolum eða vitnum á leið í dómshús eða frá því séu bannaðar. Á þetta ákvæði eingöngu við um upptökur fjölmiðla eða mun þetta fortakslausa bann jafnframt ná til alls almennings með myndavélar og hljóðupptökutæki í snjallsímum? Hvenær er aðili máls á leið í dómhús? Verður bannað að taka myndir frá því að viðkomandi leggur á bílastæði, til dæmis í miðborg Reykjavíkur, og þar til hann hefur gengið alla leið í dómhúsið? Í fljótu bragði virðist þetta ákvæði vanhugsað og óframkvæmanlegt.

Að lokum skal gjalda varhuga við því að þrengt verði að möguleikum fjölmiðla til að fjalla um viðamikil og fréttnæm dómsmál. Ekki fæst séð að fjölmiðlar hafi misnotað það frelsi sem þeir hafa haft til að flytja fréttir af dómsmálum hingað til. Upptökur í dómshúsum hafa hvort tveggja ótvírætt frétta- og heimildagildi í sögulegu samhengi.“

Eins og áður segir hefur Ríkisútvarpið lagst gegn samþykkt frumvarpsins. Það er engin þörf á að þetta frumvarp verði að lögum. Það er ekkert vandamál fyrir hendi í þessu samhengi sem frumvarpið leysir heldur myndi samþykkt frumvarpsins þvert á móti vega alvarlega að lýðræðinu okkar, tjáningarfrelsinu, upplýsingagjöf til almennings. Málefni er varðar þetta frumvarp er að mínu mati vanhugsað, óþarft og mögulega skaðlegt.