151. löggjafarþing — 57. fundur,  18. feb. 2021.

opinberar fjárfestingar og atvinnuhorfur.

[13:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Í dag eru nákvæmlega 140 dagar liðnir frá því að hæstv. formaður Framsóknarflokksins kom hér upp nokkuð borubrattur, undir stefnuræðu forsætisráðherra, og hrópaði: Atvinna, atvinna, atvinna. Hann sagði þjóðina standa í miðju stríði í kórónuveirufaraldri og helsta andsvar okkar við því væri að skapa atvinnu. Þetta gaf auðvitað ýmis fyrirheit en við skulum skoða aðeins hvernig málum er háttað í dag. Það eru yfir 26.000 manns atvinnulaus á Íslandi og samt gerðu fjárlög ríkisstjórnarinnar ekki ráð fyrir að atvinnuleysi myndi lækka nema um 1 prósentustig á þessu ári. Nýleg þjóðhagsspá Íslandsbanka sýnir að þetta muni ekki einu sinni nást heldur verði atvinnuleysið töluvert meira í haust en áður var gert ráð fyrir. Sama spá, reyndar fleiri mælingar, sýnir einnig að fjárfesting hins opinbera verði töluvert minni en ríkisstjórnin lofaði.

Í skýrslu Samtaka iðnaðarins, sem kom út í gær, var birt falleinkunn. Þar er gagnrýnt hversu lítið er lagt í opinberar fjárfestingar. Þær nægi ekki til þess að ná uppsafnaðri viðhaldsþörf næstu tíu árin. Frá því í vor höfum við í Samfylkingunni kallað eftir því að ríkið nýti góð lánakjör og fjárfestingarsvigrúm til að ráðast í miklu kraftmeiri aðgerðir, auka verðmætasköpun, skapa atvinnu og undirbyggja nýjar útflutningsstoðir. Síðast en ekki síst auðvitað að veita meiri stuðning til heimila sem fara verst út úr kreppunni. Um þetta virðist ekki deilt nema þá helst hjá ríkisstjórninni. Nú væri fróðlegt að fá svör hæstv. ráðherra við því af hverju ekki er að takast að skapa fleiri störf þrátt fyrir loforð um annað. Í öðru lagi: Hvernig stendur á því að fjárfestingar hins opinbera eru ekki að skila sér?